140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra flutti okkur þau tíðindi að hún hefði lokið ræðu sinni á sínum tíma. Það voru í sjálfu sér engin tíðindi. Ef hún hefði ekki lokið ræðu sinni þá hefði hún gert það sem enginn hefði nokkurn tíma í sögu alheimsins getað gert að halda endalausa ræðu. Auðvitað lauk ræðu hæstv. forsætisráðherra en hún sló samt metið og við skulum ekki taka þann titil af hæstv. forsætisráðherra.

En látum fortíðina liggja í þessum efnum. Við skulum bara tala um nútíðina, við skulum tala um það sem er verkefnið núna.

Þinghaldið er einfaldlega komið í mjög mikið óefni, það sjáum við öll. Við höfum mjög miklar áhyggjur af því öll, held ég, sem sitjum á Alþingi. Þá vil ég hvetja hæstv. forsætisráðherra til að greiða fyrir þingstörfum, hún hefur þá einstöku stöðu að geta lagt sitt af mörkum í því. Það er ekki verið að gera. Afgreiða átti í gríðarlegri ósátt stórt mál, sem var fiskveiðistjórnarfrumvarpið, út úr atvinnuveganefnd. Það var gert með miklum andmælum okkar stjórnarandstæðinga. Málið er enn fast þar inni vegna þess að auðvitað er öllum ljóst að málið er ekki orðið þingtækt, (Forseti hringir.) það er ekki hægt að afgreiða það úr nefndinni.

Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til þess, af sínum alkunna vilja til að reyna að semja í svona málum, að leggja sitt af mörkum.