140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það gengur ýmislegt á í málefnum Evrópusambandsins hér á landi og er róðurinn orðinn mjög þungur því að í könnunum eykst andstaðan við það. Það stendur á Evrópuvaktinni í dag að sendiherra Evrópusambandsins, Timo Summa, sé á förum frá Íslandi og að starf hans hafi verið auglýst laust til umsóknar.

Ég hef spurt fulltrúa í hv. utanríkismálanefnd hvort þetta hafi verið til umræðu í nefndinni og svo er ekki. Einhver flótti virðist brostinn á í sendiráði ESB á Íslandi. Haldið hefur verið uppi mjög málefnalegri gagnrýni á sendiherrann, sendiráðið sjálft og Evrópustofu sem starfar á vegum Evrópusambandsins. Færa má fyrir því rök að þessir aðilar hafi brotið gegn 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja þar sem þeir hafa blandað sér mjög freklega í viðkvæm innanríkismál hér á landi.

Að auki hef ég bent á að líklega séu þessir aðilar líka að brjóta lög um prentmiðla frá 1978 vegna þess að allur pólitískur áróður frá erlendum ríkjum er hreint og beint bannaður. Ég tel að hægt sé að lögjafna milli laga um prentmiðla og þess sem er að gerast á netinu, með auglýsingum á netmiðlunum frá þessum aðilum. Ég ætla að fagna því sérstaklega að þessi aðili sé á förum því að eins og fram hefur komið var sendiherra Þýskalands meira að segja farinn að blanda sér inn í þessar viðkvæmu upplýsingar. En nú er rétt að þagna, hv. þingmenn.