140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Veiðileyfafrumvarpið sem við höfum verið að ræða hér og gjaldtakan á því byggð er augljóslega stórgallað frumvarp. Það hefur komið fram í meðförum þingsins að reiknimeistari sá sem hannaði reikniformúluna hafði misskilið þetta mál allherfilega hvað varðar auðlindahugtakið og auðlindarentuna og gögn þau sem nota átti sem grundvöll gjaldtökunnar henta ekki með nokkrum hætti til slíks. Þetta hefur komið fram í meðförum þingsins. Málið er stórgallað.

Nú liggur fyrir að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lagt til töluvert umfangsmiklar breytingar á þessu frumvarpi og við erum enn í 2. umr. um þetta mál. Ég tel ljóst að atvinnuveganefnd verður að senda þessar breytingar sínar til umsagnar sérfræðinga því að hér er um að ræða alveg gríðarlega mikilvæga atvinnugrein. Það væri enginn bragur að því, virðulegi forseti, ef hlaupið yrði í slíkar breytingar án þess að fá álit sérfræðinga á þeim. Því tel ég ljóst — og ég tek reyndar undir með hv. þingmanni sem hér talaði áðan að það er ekki við hæfi að þinginu verði haldið opnu of nálægt forsetakosningunum — að við munum þurfa að koma hér aftur saman í júlímánuði til að vinna áfram í þessu frumvarpi ef meiningin er að keyra það í gegn. Það er ekki hægt að klára þetta mál á nokkrum dögum, það er það illa undirbúið.

Ég tel þess vegna líka einboðið, virðulegi forseti, að forsætisnefnd og forseti setjist niður með hæstv. sjávarútvegsráðherra og bendi honum á að þingið mun ekki taka við fleiri málum frá þeim hæstv. ráðherra sem svona illa eru undirbúinn. Það er skömm að því hvernig þetta mál var lagt inn í þingið, óhugsað, óundirbúið, og hér er um að ræða eina (Forseti hringir.) mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.