140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum hér undanfarna daga rætt frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld, sem er sögulegt skref ríkisstjórnarflokkanna í þá átt að virkja í fyrsta sinn ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem fjallar um sameign þjóðar á nytjastofnum sjávar.

Ég hef áður kallað það úr þessum ræðustól mestu lagasniðgöngu síðustu áratuga að í rúm 20 ár hefur verið fest í lög að þjóðin eigi fiskinn í sjónum en helmingaskiptaflokkarnir hér á þinginu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa komist upp með að hafa þetta ákvæði laga að engu og stinga auðlindaarðinum beint í vasa útgerðarinnar. (Gripið fram í.)

Í nýja veiðigjaldafrumvarpinu, með breytingartillögunni, er gert ráð fyrir því að ríkið fái í sinn hlut 15 milljarða í veiðigjöld á næsta fiskveiðiári, sem er um það bil 20% af framlegð útgerðarinnar. Staðreyndirnar eru þær að miðað við áætlaða framlegð greinarinnar á næsta fiskveiðiári mun útgerðin sitja eftir með 63 milljarða eftir að hafa borgað veiðigjaldið. Það er nálægt því að vera 40% yfir meðaltalsframlegð síðustu 10 ára í greininni. Þetta er nú öll aðförin, þetta er nú öll slátrunin, hv. þm. Árni Johnsen, það má bjóða mér þessa aðför í morgunmat á hverjum einasta degi. (ÁJ: Þú veist ekkert hvað þú ert að tala um.) Þetta er mergurinn málsins og það sem meira er, eftir að búið er að taka tillit til vaxtakostnaðar og fyrningar sitja enn eftir rúmlega 30 milljarðar hjá útgerðinni.

Hræðsluáróður LÍÚ er byggður á rangfærslum og yfirgangi forréttindastéttar sem notið hefur stuðnings pólitískra afla hér í þinginu við (Gripið fram í.) að snuða almenning í landinu um réttmætan (Gripið fram í: En Framsóknarflokkurinn …) hlut sinn af auðlindaarðinum (Gripið fram í: En ASÍ …) úr útgerðinni.

(Forseti (RR): Forseti biður fólk um að …)

Við þessa menn segi ég: Ekki meir, ekki meir. Nú eru breyttir tímar. Og eina leiðin til að ná sátt í samfélaginu um þetta kerfi er að þjóðin fái sanngjarnan og réttmætan hlut í auðlindarðinum í framtíðinni. (Gripið fram í.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum tækifæri til að tala þær tvær mínútur sem þeir hafa í ræðustól.)