140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:13]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í prinsippinu er skattlagning ekki stjórnarskrárbrot. Skattlagning er bara eðlileg svo lengi sem hún er gerð á sanngjarnan hátt. Við þekkjum marga skatta sem eru lagðir á sem nefskattar, þeir eru lagðir á sem krónutala á alla án tillits til þess hvort þeir hafi miklar tekjur eða litlar, hvort þeir eigi miklar eignir eða litlar, það er lagt jafnt á alla. Síðan þekkjum við skatta sem eru lagðir á þannig að þeir sem meira bera úr býtum eða hafa þá samsetningu borga tekjutengda skatta. Aðalatriðið er það að skattarnir séu lagðir þannig á að allir sitji við sama borð í því efni, þ.e. að allar útgerðir í landinu sitji nokkurn veginn við sama borð, tekið sé tillit til eðlilegra frádráttarliða o.s.frv.

Um muninn á þessu og auðlindarentunni verð ég að játa að ég hef ekki alveg nógu mikið vit til að greina það að. Ég hneigist til að hafa meiri áhyggjur af því hvernig skattákvörðunin fer fram frekar en nákvæmlega þessu. Mér finnst ekki skipta máli hvað við köllum það. Okkur er heimilt að leggja á skatta til að afla ríkissjóði fjár og okkur er heimilt að leggja þá á ákveðnar atvinnugreinar líka.