140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður er mjög hugsi yfir viðhorfi stjórnvalda þetta kjörtímabil til sjávarútvegsins. Við sáum það í fréttum, af því að hv. þingmaður nefndi Noreg, að norskir ráðherrar ásamt tugum aðila í sjávarútvegi voru á ferð um Afríku ekki alls fyrir löngu þar sem var verið að kynna og afla nýrra markaða fyrir norskar sjávarafurðir. Það þekkist ekki á Íslandi að stjórnvöld þetta kjörtímabil hafi verið að tala upp sjávarútveginn eða hafi unnið eitthvað með sjávarútveginum og reynt að afla nýrra markaða með þeim sem í greininni starfa. Þvert á móti er talað niður til greinarinnar og til allra þeirra sem starfa í henni.

Á sama tíma sjáum við að það er verulegur samdráttur í Evrópu, samdráttur á helstu viðskiptasvæðum Íslendinga með sjávarafurðir. Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum hafa stjórnvöld ekki áhyggjur af því? Þau ættu að leggjast á árar með aðilum í greininni að kanna ný markaðstækifæri, kanna ný lönd og reyna að opna markaði sem hægt væri að selja þessar afurðir inn á ef Evrópa hrynur endanlega, sem margt bendir nú til, því miður.

Við hljótum að kalla eftir því að stjórnvöld horfi á þessa atvinnugrein með sanngjörnum augum, atvinnugrein sem skapar hér mörg störf, skilar gríðarlegum tekjum í þjóðarbúið, er sjálfbær atvinnugrein sem ekki þarf að ausa fjármunum í eins og samkeppnislöndin gera. Stjórnvöld gætu hampað þessari atvinnugrein og sagt: Sjáið þið, hér erum við með umhverfisvæna, sjálfbæra atvinnugrein sem framleiðir bestu fáanlegu vörur í heimi úr sjávarfangi úr sjálfbærum veiðum. Það á allt að vera með Íslendingum á þessu sviði. Þess í stað erum við með stjórnvöld sem tala niður atvinnugreinina, ekki bara þessa heldur líka aðrar atvinnugreinar sem skila einhverju í þjóðarbúið. (Forseti hringir.) Þetta er að sjálfsögðu, hv. þingmaður, algjörlega óþolandi ástand.