140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er sérstakt þegar við erum komin á þann stað að umræðan einkennist meira af upphrópunum en því að fjalla um efni málsins. Það er nefnilega mjög auðvelt að draga upp einfalda mynd, að ef þeir sem á einhvern hátt gagnrýna uppsetningu þessa máls eða útfærslu séu taglhnýtingar einhverra sérhagsmunasamtaka þá hlýtur Alþýðusamband Íslands að vera orðið taglhnýtingur sérhagsmunasamtaka því að Alþýðusamband Íslands hefur efasemdir um þetta. Þá hljóta þeir ágætu fræðimenn sem gerðu úttekt á þessu máli og gagnrýndu það gríðarlega, fræðimenn við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, að vera orðnir taglhnýtingar sérhagsmunasamtaka. Þá hljóta sveitarfélög eins og Skagafjörður, Vesturbyggð, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Tálknafjörður, Snæfellsbær, Bolungarvík og Fjórðungssamband Vestfirðinga, Samtök sveitarfélaga í Norðurlandi vestra — ég tel aðeins upp sveitarfélög sem eru í mínu kjördæmi — að vera orðin taglhnýtingar sérhagsmunasamtaka því allir þeir aðilar gagnrýna á einn eða annan hátt þessi mál og hvetja til þess að þau verði skoðuð á nýjan leik frá grunni.

Hvað varðar seinni vangaveltur hv. þingmanns um að aðallega hafi verið fært til smábátaútgerðar þá er það hárrétt. Allar aflabreytingar hafa miðað að því að færa á einhvern hátt til smábátaútgerða. Málflutningur sumra á því einfaldlega ekki við rök að styðjast og er frekar til þess fallinn að halda málinu í einhverju pólitísku áróðursstríði af því að það hentar hugsanlega öðrum stjórnarflokknum. Maður hefur ákveðnar áhyggjur af því. Ég held til að mynda að þeim sveitarfélögum sem ég þuldi upp líki ekki málflutningur hv. þingmanna Samfylkingarinnar að vera líkt við einhvers konar taglhnýtinga við LÍÚ. Ég held að þau séu ekki að gæta hagsmuna þar. Þau eru að gæta hagsmuna sinna eigin byggðarlaga.