140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið rangt með. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði mér að þetta hefði ekki verið kallað bílslys heldur járnbrautarslys. (Gripið fram í: Hvað er þetta þá?) (Gripið fram í: Þetta var bílslys, það er rétt hjá þér, það má kalla það bílslys líka.) Virðulegi forseti. Ég ætla að fresta öllum afsökunarbeiðnum og fara betur yfir þetta mál á milli slysa. En eitt er alveg ljóst, þetta er slys. (Gripið fram í: Stórslys.) Stórslys.

Það er hárrétt hjá þingmanninum og það er augljóst að þessi svokallaða fjárfestingaráætlun er neyðarúrræði. Menn áttuðu sig á því í umfjöllun þingsins um hvers konar slys væri að ræða, hversu alvarlegar afleiðingar þetta hefði á landsbyggðina. Og þá komu menn og settu á einhvers konar merkimiða, við ætlum að fá þessa milljarða hér og þessa þar, og bara ef við fáum þessi ruglfrumvörp í gegn þá fáið þið allt það sem þið viljið. Þið fáið jarðgöng hér og þið fáið vegabætur þar og hvað þetta er allt saman. Þetta er auðvitað (Forseti hringir.) eins og annað hjá þessari fúskríkisstjórn, þetta eru handarbakavinnubrögð sem kosta þjóðina mikla fjármuni.