140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mörgum hefur orðið nokkuð tíðrætt um það hversu langan tíma það tekur að fara í gegnum þetta frumvarp. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar litið er til þess hvernig þetta frumvarp kom inn í þingið og þeirra miklu athugasemda sem hafa verið gerðar. Enn á ný er þetta áminning fyrir okkur þingmenn og hæstv. ráðherra að þau frumvörp sem koma hingað, að ég tali ekki um í jafnmikilvægu máli og snýr að íslenskum sjávarútvegi, séu vel undirbúin, það sé búið að fara í gegnum alla tæknilega þætti málsins, þannig að hér á þingi getum við einbeitt okkur að því að ræða meginsjónarmið og takast á um grundvallarskoðanir er snúa að þessum atvinnugreinum.

Því miður var þetta frumvarp lagt fram þannig að á því voru augljóslega umtalsvert miklir gallar, bæði á reikniverkinu og þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar útreikningi á því gjaldi sem stendur til að leggja á. Þetta hefur mengað alla umræðuna, gert hana erfiðari og lengt hana þess vegna. Við þurfum að fara í gegnum alla þessa þætti í þinginu og sagan kennir okkur að það er nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn að ræða þessa hluti í þingsalnum vegna þess, rétt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á, að með því að við förum í gegnum þetta koma smám saman í ljós agnúar og gallar sem mönnum yfirsást við samningu frumvarpsins. Það er svo skylda okkar að fara vel í gegnum þessa hluti til að koma í veg fyrir að við samþykkjum lög sem svo augljóslega hefðu haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Hvað varðar þá reiknireglu sem sett var fram er í mínum huga nokkuð ljóst að það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla að skipuleggja umhverfi atvinnugreina með slíkum reikniformúlum. Það er mikil oftrú á getu reiknimeistaranna að þeir geti sett fram svona reglur og vænst þess að slíkar reglur muni ekki hafa áhrif á hegðan manna í greininni. Eitt er það til dæmis að hlutunum er komið þannig fyrir í þessari reiknireglu að laun eru dregin frá gjaldinu. Það er alveg rétt, hvert og eitt fyrirtæki horfir á sinn rekstur og því skyldi maður ætla við fyrstu sýn að ekki væri nein hætta á því að það hefði áhrif á laun eða fjölda starfa eða að einhvers konar breytinga væri að vænta hjá atvinnurekendunum á hlutfallinu milli unninna vinnustunda annars vegar og hins vegar fjárfestinganna, vélvæðingarinnar. Þegar menn aðeins horfa dýpra á þetta eru kjarasamningar miðlægir. Þegar menn setjast niður og semja um kaup og kjör munu þeir auðvitað velta þessu fyrir sér, þ.e. hvernig reiknireglan er sett upp. Annar samningsaðilinn gæti til dæmis haft af því hagsmuni að fjölga störfunum, reyna jafnvel að halda niðri laununum til að breyta niðurstöðu gjaldsins. Ég er ekki að fullyrða að svo verði en það sem ég bendi á er að þegar menn setja fram svona reiknireglu og ætla sér að stýra skattlagningu á grundvelli hennar er eins gott að menn vandi sig og þá er eins gott að menn séu búnir að láta fara fram mjög ítarlegar úttektir á mögulegum afleiðingum slíkra reglna.

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á að heyra hvaða hagfræðingar hafa tekið undir þessar tillögur, hafa lýst þeirri skoðun að þeir telji að það fyrirkomulag sem var lagt upp með með þessari reiknireglu sé heppilegt, skynsamlegt og til þess fallið að auka velferð íslensku þjóðarinnar. Ég vildi gjarnan frétta það. Ég veit að innan hagfræðistéttarinnar eru deildar meiningar um hvort það sé heppilegt að taka auðlindagjald eða ekki og með hvaða hætti. En við hljótum að kalla alveg sérstaklega eftir þessari útfærslu. Hvaða hagfræðingar skyldu það vera sem hafa lýst yfir ánægju með þessa útfærslu?

Síðan er hitt, að á vettvangi atvinnuveganefndar hafa komið fram breytingartillögur á þessu gjaldi. Ég tel mjög nauðsynlegt, og hef sagt það áður, að þær hugmyndir verði sendar til háskólasamfélagsins, til þeirra sem best og gerst þekkja til í atvinnugreininni og til sveitarstjórna og annarra til að fá umsagnir þeirra um þessar breytingar. Það kann að taka einhvern tíma en ekki svo mjög langan og það er sjálfsagt mál áður en lengra er haldið að slíkar umsagnir komi inn til að við getum í þessari umræðu betur lagt mat á mögulegar afleiðingar þeirra breytinga sem atvinnuveganefnd lagði til eftir að hún fékk málið til meðferðar.

Áður en tíminn hleypur alveg frá mér vil ég líka nefna annað í þessari ræðu, það að rekstrarsaga sjávarútvegsins kennir að minnsta kosti eitt. Þegar um herðist og þrengist í sjávarútvegi hefur það óumflýjanlega neikvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar. Þannig er það. Þess vegna er aukin ástæða og umfram allt það sem við höfum verið að ræða hér til að leggja sérstaklega mat á það hvaða áhrif svona gjaldtaka kynni að hafa á gengi íslensku krónunnar.

Af hverju er þetta mikilvægt? Vegna þess að við þekkjum það að til að halda samkeppnisstöðu sinni verður sjávarútvegurinn á Íslandi að vera samkeppnisfær og ekki bara við sjávarútveg annarra landa heldur líka aðra matvælaframleiðslu. Ef sjávarútvegurinn er ekki samkeppnisfær, ef ekki tekst að halda áfram með sama krafti og hingað til að lækka sóknarkostnaðinn, lækka vinnslukostnaðinn, fjárfesta þannig, vinna markaðsstarfið og horfa til langs tíma í því öllu saman, ef dregur úr þessu dregur jafnframt úr samkeppnishæfninni. Ef dregur úr samkeppnishæfninni eykst þrýstingurinn á gengi íslensku krónunnar. Leiði sá þrýstingur til þess að gengið falli þýðir það einfaldlega að verðbólgan hækkar og það lendir á öllum almenningi, bæði í formi hærri lána og hærri framfærslukostnaðar. Það er alveg nauðsynlegt að hafa þetta í huga, virðulegi forseti. Út af þessu öllu saman er ekki hægt að segja neitt annað en að menn hafi orðið fyrir vonbrigðum, og það verulegum, með hvernig hæstv. ráðherra lagði þetta mál inn í þingið.

Þetta er ekki einfalt mál og hæstv. ráðherra er auðvitað vorkunn með það að það er flókið og líklegt til að valda miklum deilum í samfélaginu af því að um er að ræða alveg gríðarlega hagsmuni. Að endingu er það þó alltaf svo að hagsmunir þjóðarinnar kalla á það fyrst og síðast að íslenskur sjávarútvegur sé rekinn af sem mestri hagkvæmni. Það skilar sér til þjóðarinnar, m.a. í sterkara gengi sem þýðir að innflutningur til landsins er ódýrari. Það skilar sér líka í því að það verður öflugri atvinnugrein með betri tækifærum og betri launum en ella. Það skilar sér í því að aðrar atvinnugreinar sem veita sjávarútveginum þjónustu, tæknigreinar ýmiss konar og iðngreinar, blómstra líka þegar sjávarútvegurinn verður öflugur. Sá auður sem verður til við það að við sækjum Íslandsmið dreifist þannig um samfélagið. Þar greinir okkur á, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og okkur sjálfstæðisþingmenn og reyndar fleiri, líka þingmenn Framsóknarflokksins, við höfum þá trú að það sé betra fyrir samfélagið að skilja meira eftir hjá almenningi í landinu, hjá fólkinu og fyrirtækjunum og láta auðinn streyma þannig, en það sem kemur fram í frumvarpinu, að það sé affarasælla að innheimta með því offorsi sem þar var lagt til svo stóran hlut af þeim hagnaði sem verður til í sjávarútvegi. Það er tími fyrir okkur til að vanda okkur og þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að tekin verði sú ákvörðun að senda í það minnsta, (Forseti hringir.) og það mundi þá skipta máli, þær tillögur sem hafa komið fram hjá hv. nefnd til umsagnar (Forseti hringir.) þannig að við getum nýtt okkur umsagnirnar í þessum umræðum.