140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld og það er fjölmargt sem hægt er að minnast á í þessari umræðu en tíminn er knappur þannig að ég ætla að tala aðeins um réttlæti.

Frú forseti. Mikið hefur verið talað um réttlæti í sambandi við íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og þeir sem fara fram með þær hugmyndir að gjörbylta fiskveiðistjórnarkerfinu okkar vísa oft til þess að færa þurfi meira réttlæti inn í kerfið okkar.

Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld og í atvinnuveganefnd liggur frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ansi erfitt að ræða frumvarpið um veiðigjöld án þess að reyna að átta sig á því hvernig frumvarpið um fiskveiðistjórnarkerfið muni líta út komi það einhvern tíma út úr atvinnuveganefnd. Við hljótum að þurfa að vita hvernig kerfið er sem við erum að fara að leggja á þessa ofurskatta sem þetta frumvarp til laga um veiðigjöld ber með sér.

Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í okkar atvinnulífi, sterkasta stoðin sem við þurfum nú á að halda meira en nokkru sinni fyrr til að ná að efla efnahag okkar til framtíðar. Við erum svo lukkuleg á Íslandi að hafa byggt upp þannig kerfi að við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án þess að til komi ríkisstyrkir. Ég þreytist ekki á að benda á þetta vegna þess að nágrannaþjóðir okkar og þjóðir víðs vegar um heim hafa horft til okkar kerfis og þeirrar staðreyndar að hér er rekinn arðbær sjávarútvegur, sjálfbær og án ríkisstyrkja. Menn horfa á þetta meðal annarra þjóða af mikilli athygli og jafnvel það mikilli athygli að mér skilst að nú hafi kerfið okkar verið tilnefnt til einhvers konar verðlauna.

Í dag ríkir mikil óvissa um hvernig þetta allt saman muni verða í framtíðinni og við sem byggjum þetta land vitum að oft ríkir óvissa um okkar daglega líf og framtíðina. Það er þá oftast vegna náttúruhamfara sem ég þekki sjálf frá mínum heimaslóðum. Þessi óvissa sem núna virðist til að mynda lama fjárfestingar í greininni er sköpuð af stjórnmálamönnum, sköpuð af okkur sem hér störfum. Nú á tímum þegar við þurfum meira á því að halda en nokkru sinni fyrr að eiga hér sterkt atvinnulíf sem skapar þannig aðstæður að fólkið í landinu hafi vinnu, geti aflað sér tekna, séð fyrir sér að það geti með eigin framtaki aflað heimili sínu meiri tekna til að ná að framfleyta sér og sínum, ráðast stjórnvöld og ríkjandi valdhafar hér á landi í að koma þessari óvissu inn í samfélagið okkar, auka enn á óvissuna og það í nafni réttlætis.

Við skulum skoða aðeins hvernig þetta réttlæti sem talað er um lítur út og reyna að hugsa það svolítið í grunninn. Reyndar ættu kannski hv. stjórnarþingmenn að vera í því hlutverki að reyna að útskýra þetta fyrir okkur en þeir virðast ekki ætla að taka frekar til máls í umræðunni. Ég vil byrja á að segja að þótt kerfið okkar sé gott er það ekki fullkomið, ekki frekar en önnur mannanna verk. Menn hafa sest niður og viljað fara yfir þau atriði sem mætti breyta og skoða í sameiningu þau mál vegna þess að menn vita að það eru hagsmunir heildarinnar að komast að einhverri niðurstöðu eftir slíkt ferli í staðinn fyrir að horfa upp á þau frumvörp sem nú liggja fyrir þinginu.

Aftur að réttlætinu sem hæstv. forsætisráðherra kallaði jafnræði í þessari viku þegar hún var að tala um þessi mál. Sú hugsun lítur þannig út fyrir mér að mönnum þyki of fáir vera að veiða og mönnum þykir þeir sem eru í því uppskera of mikið fyrir það sem þeir eru að gera. Það er það sem mér heyrist á þeim hv. þingmönnum sem þó hafa blandað sér í umræðuna og mér heyrist það vera viðhorfið hjá ráðherrunum þegar þeir hafa tjáð sig um þetta réttlæti. Þá hljóta menn að miða við það hvernig hlutirnir eru hjá öðrum þjóðum vegna þess að hér hafa sjómenn tiltölulega háar tekjur, a.m.k. hærri tekjur en þeir sjómenn sem ég hef hitt og starfa innan landa Evrópusambandsins. Þar af leiðandi stuðlar þetta að öflugri sjávarútvegsfyrirtækjum og auknum gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið. Þar með hjálpar það við að halda uppi kaupmætti hér á landi. Þetta þykja mér alveg ágætiskostir en ef menn halda því fram að það þurfi meira réttlæti inn í kerfið hljóta menn að segja að þetta sé óréttlæti. Þá spyr ég enn og aftur í þessari umræðu af því að ég hef ekki fengið svör: Hvenær er réttlæti náð? Snýst þetta réttlæti um að sem flestir komist út að veiða? Eigum við öll að vera í hlutastarfi við það að fara út að veiða? Hvar á réttlætið að vera? Hvernig á þetta að líta út? Er það kannski ekki hugsunin? Er þá verið að reyna að finna leið til að fjölga þeim aðilum sem hafa nú hvorki veiðiheimildir né starf við það að sækja sjóinn? Þá spyr ég: Hve margir og hverjir eiga það að vera? Ég skil einfaldlega ekki samhengið í þessu eða er það þannig að réttlætið felist í því að við eigum öll að fara út að veiða ef okkur langar til?

Mér er það mikið hjartans mál að fólk hér á landi geti fyrir eigið framtak byggt upp fyrirtæki sín, farið á vettvang, skapað verðmæti og þannig gert landi og þjóð gagn með því að auka eigin tekjur, ráðið hugsanlega fólk í vinnu, skapað því starfsfólki sínu öruggar starfsaðstæður, reynt að fá stöðugt hærra verð fyrir afurðir sínar, unnið nýja markaði og notið síðan afrakstursins, afraksturs síns eigin framtaks. Þetta held ég að sé lykillinn að því að hér sé öflugt atvinnulíf. Ég tel það ekki felast í því að ríkið sé að vasast með puttana í þeim rekstri sem nú er á vegum einkaaðila. Ég vil ekki að við hverfum aftur til þeirra tíma þegar Bæjarútgerðin var hér, þegar ríkisstyrkir voru í sjávarútveginum. Ég sé að í hliðarsal eru hv. þingmenn sem muna þá tíma þegar kerfið var þannig, þegar umhverfið var þannig, og eru aðrir þingmenn búnir að gleyma hvernig það var? Ég vona að svo sé ekki vegna þess að við hljótum að ætla að læra af sögunni.

Ég ítreka þó að auðvitað er ýmislegt sem menn hafa rætt um hér sem er rétt að skoða varðandi kerfið okkar en við megum ekki gleyma grundvallaratriðinu. Við erum með öflugan sjávarútveg, greinin skilar arði, henni gengur vel og er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sem við eigum að hlúa að í stað þess að rugga bátnum, vaða í það að skapa óvissu í greininni, óvissu um störf þess fjölda Íslendinga sem starfa í greininni eða þjónusta hana. Við heyrum þær raddir í ræðum þeirra fjölmörgu sem kvöddu sér hljóðs á útifundinum í gær, fólks úr öllum stéttum og fólks sem nú sendir okkur tölvupósta í gegnum netföngin okkar. Við heyrum skilaboð um að hlusta á þær raddir (Forseti hringir.) sem heyrast, hlusta á þær umsagnir sem hafa borist. Ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til að endurskoða þessi tvö frumvörp sem liggja fyrir þinginu.