140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um veiðigjöld og athugasemdir sem hafa komið við það. Mig langar í upphafi að lesa, með leyfi forseta, úr tveimur viðtölum og gríp ég fyrst niður í annað viðtalið. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta fyrra viðtal er að mér finnst ótrúlegt það fálæti sem Reykjavíkurborg og bæjarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sýna sjávarútveginum og öllu því fólki sem vinnur í atvinnugreininni. Mig langar því, með leyfi forseta, að lesa smávegis úr gömlu viðtali:

„Ég tel að borgaryfirvöldum beri að tryggja að hægt sé að stunda sjávarútveg í borginni. Enda er Reykjavíkurhöfn ein umsvifamesta höfn landsins í sjávarútvegi. Við vorum lengst af sú stærsta, en höfum nýlega tapað forustunni til Vestmannaeyja og Akureyrar. Það er mjög mikilvægt að hlúa að sjávarútveginum hér í borginni. Hér búa sjómenn, útgerðarmenn og fiskverkafólk og hér er einnig umfangsmikill iðnaður og þjónusta sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á þjónustu við sjávarútveginn í Reykjavík og í ýmsum tilvikum teygir þjónusta þessara fyrirtækja sig um landið allt.“

Þetta er viðtal við mann sem heitir Hjörtur Gíslason og er tekið árið 2005. Viðtalið og það sem þar kemur fram á einnig við í dag að mínu viti og mjög áhugavert er að lesa það. Það birtist í fréttabréfinu Útvegurinn þar sem fjallað er um stöðuna hjá útgerðinni á þeim tíma þegar gengið á krónunni var óeðlilega hátt og hvernig það ástand var allt saman.

Síðan langar mig að grípa niður í annað viðtal sem vitnað hefur verið í hér áður en á engu að síður vel við í dag líka. Það er viðtal við þáverandi hv. þingmann og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingrím J. Sigfússon. Þetta viðtal er í fréttabréfinu Útvegurinn, sem ég sé núna að er gefið út af Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Ég ætla að grípa niður í viðtalið, með leyfi forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur. Þessu má með einföldum orðum lýsa á eftirfarandi hátt: Sá hagnaður, í tapárum það eigið fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið færi út úr fyrirtækjunum og út úr byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. Það er morgunljóst. Í hvað hefur hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað farið undanfarin ár? Hann hefur í meginatriðum farið í endurnýjun loðnubræðslunnar, í að kaupa Blæng, fór í að endurbyggja Beiti og fer í að endurbyggja Börk. Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.“

Virðulegi forseti. Það er vert að hafa þetta í huga því að ég er algerlega sammála því sem hv. þingmaður á þeim tíma sagði í þessu viðtali. Ég held að þeir sem hafa sent inn athugasemdir, fjölmörg sveitarfélög séu einmitt að taka undir þessar skoðanir. Allt það sem kemur fram í þessu ágæta viðtali á mjög vel við og lýsir vel mikilvægi greinarinnar í þeim byggðarlögum þar sem sú keðja sem um ræðir var til staðar og er enn til staðar. Það er einmitt þannig að þjónustufyrirtækin sem vinna við að þjónusta sjávarútveginn og allt sem í kringum þau er skipta svo miklu máli í þeim sveitarfélögum.

Við sáum um daginn í einhverju dagblaðinu heilsíðuauglýsingu þar sem fjöldinn allur af sveitarfélögum og sveitarstjórnarmönnum skorar á Alþingi að vanda til verka við þessi frumvörp. Það sem maður sér og hefur heyrt frá því fólki þá veit maður að það hefur nákvæmlega þær sömu skoðanir og komu fram í viðtalinu sem ég vitnaði í áðan, þ.e. að áhyggjurnar af því að þetta verði of íþyngjandi fyrir fyrirtækin sem halda í rauninni uppi samfélaginu á mörgum þessara staða, eru burðarásar í samfélaginu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að í mörgum meðalstóru bæjunum okkar, ég nefni bara mitt heimahérað, heimabæ minn, tengist jafnvel allt að því 1/4, jafnvel 1/3, af störfunum með beinum eða óbeinum hætti þessari atvinnugrein. Þegar við horfum á þetta í heild og sjáum hvar störfin við greinarnar eru þá eru þau í versluninni sem þjónustar kost við skipin. Það er í bílnum sem keyrir kostinn út í skipin, það er í vélsmiðjunni sem þjónustar skipin, það er hjá rafvirkjunum sem þjónusta skipin, það er hjá smiðunum sem koma og laga káetur og annað, það er hjá vöruflutningabílstjórunum sem keyra fiskinn, það er hjá fiskvinnslufólkinu að sjálfsögðu, það er hjá skrifstofufólkinu sem vinnur á skrifstofunum, það er hjá netafyrirtækinu. Þau störf sem tengjast þessari grein eru úti um allt samfélagið. Því er ósköp eðlilegt að sveitarfélögin sendi inn athugasemdir af því að þau sjá vitanlega — þau eru að sjálfsögðu búin að láta reikna út fyrir sig af sérfræðingum, endurskoðunarfyrirtækjum og öðrum hvað getur gerst ef þetta nær allt fram að ganga.

Því er mjög mikilvægt að menn horfi á þetta út frá þeim sjónarhornum líka og því til stuðnings vil ég benda á að niðurlagið í umsögn Byggðastofnunar er að telja megi að veiðigjaldið sé landsbyggðarskattur, og ýtir það undir eða styður í það minnsta við þær fullyrðingar eða þær skoðanir sem komu fram í viðtalinu sem ég vitnaði í áðan og las upp úr.

Ef við horfum til dæmis á athugasemdir frá Vesturbyggð um frumvarpið þar sem farið er yfir tölur og tölulegar upplýsingar, þá kemur þar fram að talið er líklegt, verði þetta allt að veruleika eins og gert var ráð fyrir í upphafi, að störfum muni fækka um sex til átta í greinum tengdum sjávarútveginum í byggðarlaginu. Það eru vitanlega býsna mörg störf í mjög litlu byggðarlagi, sex til átta störf, því er ekki að neita. Það eru býsna mörg störf. Það er svipað og þegar átti að leggja niður, sem var svo gert á endanum, störf hjá sýslumanninum á Hólmavík. Ég held að það hafi verið fjögur eða fimm störf og menn komust þá að því að þau voru 14% allra opinberra starfa í byggðarlaginu. Og fyrir slíkt samfélag skiptir það miklu máli. Fyrir samfélag eins og Vesturbyggð skiptir það miklu máli að ekki verði fækkun starfa þegar byggðarlögin eiga jafnvel í vök að verjast út af allt öðrum hlutum.

Ég held að þær áhyggjur sem koma fram séu mjög eðlilegar og skiljanlegar. Sá fundur sem haldinn var á Austurvelli, samstöðufundur meðal sjómanna, útgerðarmanna, verkafólks sem vinnur hjá þessum aðilum, var mjög góður fundur að mínu viti og ósköp eðlilegt að hann skuli vera haldinn. Það var hins vegar sorglegt að fámennur hópur reyndi að eyðileggja þann fund. Það var vitanlega sorglegt að heyra einhverja aðila úr þeim fámenna hópi kalla: Niður með landsbyggðina. Það lýsir kannski einhverjum viðhorfum, ég veit það ekki. Ég vona að slíkt viðhorf sé ekki viðloðandi á höfuðborgarsvæðinu en þarna kom það (Forseti hringir.) berlega fram hjá hluta af þeim aðilum sem þarna voru svo ég noti ekki sterkara orð.