140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að Sjómannasambandið hefur áhyggjur af þessu og réttilega. Fyrst er til að taka að eftir því sem hagnaður minnkar í greininni, minnka möguleikarnir fyrir greinina til að fjárfesta og halda áfram að auka tæknigetuna. Þar með er kjörum allra í greininni stefnt í hættu. Hvers vegna, virðulegi forseti? Vegna þess að íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við sjávarútveg annarra landa og ekki bara sjávarútveg annarra landa heldur matvælaframleiðslu ýmiss konar. Eftir því sem dregur úr samkeppnishæfninni dregur úr getu greinarinnar til að greiða há laun. Þetta ætti að vera mjög auðskilið.

Þar við bætist við þennan þátt málsins að rétt eins og sjómennirnir hafa áhyggjur af eru líkur á því að útgerðarmenn reyni að finna leiðir til að lækka með einhverjum hætti aðra kostnaðarliði til að mæta þessari gjaldtöku. Ég sé þær leiðir ekki í fljótu bragði en ég er sannfærður um að menn munu setjast yfir það. Þá verður allt undir hvort sem það eru laun eða þróunarstarf vegna þess, enn og aftur, að rekstur þessara fyrirtækja er í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Það er vissulega rétt að stundum árar vel og gengur ágætlega og það myndast auður. En stundum gengur illa og um það eru fjölmörg dæmi úr íslenskum sjávarútvegi, það veiðist minna, markaðir eru erfiðir og þá þurfa menn að eiga fyrir því að komast í gegnum slík tímabil. Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem er ástæða til að taka undir þær áhyggjur sem hv. þingmaður reifar í ræðustól og koma fram hjá Sjómannasambandinu, þeirra aðila sem auðvitað eru í hópi þeirra sem gerst þekkja til íslensks sjávarútvegs.