140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Sá forseti sem nú er á forsetastól hefur sýnt slæma fundarstjórn að mínu mati, gerir upp á milli þingmanna, sýnir flokkadrætti (Gripið fram í: Rétt.) og núna í þeirri viku sem er að líða hefur hún tvisvar verið uppvís að því annars vegar að brjóta vinnureglur forsætisnefndar og hins vegar þingsköp. Ég geri því alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn hæstv. forseta.

Ég tek líka undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um þá fásinnu sem við verðum vitni að hér. Í upphafi þingfundar í morgun var farið fram á að í það minnsta yrði látið vita hversu lengi þingfundur mundi standa þannig að menn gætu gert ráðstafanir til að komast í áður áformaða (Forseti hringir.) atburði. Ég fer fram á það að þessum fundi verði slitið (Forseti hringir.) vegna þess að það er algjörlega fráleitt (Forseti hringir.) að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) skuli ekki vera hér (Forseti hringir.) heldur þar sem þingmenn (Forseti hringir.) Norðausturkjördæmis (Forseti hringir.) voru búnir að áforma að vera (Forseti hringir.) fyrir löngu síðan, frú forseti.