140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, mér finnst opinber markaðsstefna mjög eðlileg, að ríkisvaldið komi með einhverjum hætti að stuðningi við atvinnulífið með því að leita nýrra markaða eða nýrra tækifæra. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim árangri sem t.d. álfyrirtækin hafa náð í að selja vörur sínar en það er kannski svolítið öðruvísi en í fiskinum þar sem hlutirnir ganga nánast sjálfkrafa fyrir sig, ef ég þekki það rétt, hjá stórfyrirtækjum úti um heim sem framleiða og selja ál.

Ég hef hins vegar, frú forseti, öfundað nokkuð Norðmenn af þeim stuðningi sem ríkisvaldið þar veitir þeim sem selja sjávarafurðir. Þar fara ráðherrar og sendinefndir með til Asíu, til dæmis, til að leggja áherslu á hversu miklu það skiptir að samningar gangi eftir. Ég hefði viljað að íslensk stjórnvöld gerðu þetta, legðust á árar með þessum aðilum til að afla nýrra markaða. Á það hefur skort að mínu viti.

Ég nefndi Fjárfestingarstofu áðan, sem er eins konar opinber markaðs- eða söluskrifstofa ríkisins þar sem verið er að laða að fjárfesta til Íslands. Þessi stofnun hefur skipt sköpum þegar kemur að því að fá hingað fyrirtæki sem eru að skoða gagnaver, fyrirtæki sem eru í kísilbransa og þau sem framleiða álþynnur eða aflþynnur eða hvað það kallast. Ég veit að þessi stofa hefur komið að slíkum þáttum, svo ég tali ekki um kvikmyndirnar þar sem þessir aðilar hafa skipt miklu í að búa hér til umhverfi og auglýsa Ísland sem ákjósanlegan kost til að gera kvikmyndir.

Ég held því að opinber markaðsstefna og opinber þátttaka með einhverjum hætti eigi vel við. Þar með er ég ekki að segja að hún eigi að yfirtaka einkaaðilana, alls ekki. Þeir eiga að sjálfsögðu að fá að markaðssetja sig og starfa í því frelsi sem þarf (Forseti hringir.) en stjórnvöld eiga og geta lagt sitt af mörkum.