140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:20]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Einkaframtakið er hæft til margra góðra hluta en sá sem hér talar vill ekki hafa allt á hendi einkaframtaksins, enda eru dæmin mörg sem sýna að þar getur farið illa. Ég veit að við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson deilum þeirri hugmynd enda flutti hann hér ágæta ræðu um að blandað hagkerfi sé sennilega það besta sem gerist í heimi hér. Það hefur dafnað hvað best á Norðurlöndum og aðrir horfa til þess.

Ég er talsmaður þess að reyna með öllum hætti að auka fjölbreytni atvinnulífs, auka á fjölbreytni erlendrar fjárfestingar og ég tel að á vissan hátt sé hættulegt að hafa starfsemina alla í sömu körfu. Iðnaður þarf að vera eins fjölbreyttur og hugsast getur, ferðaþjónusta sömuleiðis og aðrir þættir sem við getum fengið erlenda fjármuni í til að styðja við atvinnureksturinn okkar. Eins þurfum við að sækja meira fram í fullvinnslu, bæði í okkar stóra og góða matvælageira, hvort heldur er í landbúnaði eða sjávarútvegi, og einnig í iðnaði ef út í það er farið. Við horfum á áliðnaðinn þar sem varan fer í allt of ríkum mæli tiltölulega lítið unnin til útlanda.

Mig langar að eiga orðastað við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson um þátt erlendrar fjárfestingar í ferðaþjónustunni sem hefur verið til umræðu hér á undanliðnum vikum og mánuðum. Menn hafa horft til hugmynda kínverska fjárfestisins Huangs Nubos um að hefja mikla ferðaþjónustu á Norðausturlandi og líka í Reykjavík í tengslum við hana. Er hv. þingmaður sammála þeirri leið sem þar stendur til að fara, að leigja þessum kínverska fjárfesti hluta úr stórri jörð til að hann geti athafnað sig hér með þeim hætti? Vildi hann gjalda varhuga við fjárfestingu af þessu tagi eða (Forseti hringir.) er hann opinn fyrir öllum leiðum í þessum efnum?