140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt í framhaldi af ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Það er sjálfsagt og eðlilegt að verða við því að taka málið inn milli umræðna og þegar hefur verið boðaður fundur í velferðarnefnd um hádegisbil á morgun og ég vænti þess að við höfum þá tækifæri til þess að fara yfir málið þá. En ég vildi bæta því við að fyrir nefndinni kom fram að Samtök fjármálafyrirtækja voru ósátt við að ekki væru stigin stærri skref í því að skerða heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga, en það er miðað við 50 millj. kr. þak á fasteignamati. En á sama tíma lá fyrir álit frá Félagi fasteignasala, en félagið taldi að hér væru skilgreiningar allt of þröngar og það mat stefndi í raun og veru í allt aðra átt.

Hitt skiptir meira máli að það kom líka fram fyrir nefndinni að þau skref sem væri verið að stíga núna, fyrstu skrefin til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA setti fram, væru samþykkt af hálfu eftirlitsstofnunarinnar sem fyrstu skref í þessa átt. Það er rétt að við förum betur yfir það á nefndarfundi, en það kom fram að jafnframt lægi fyrir að eftir tvö ár að hámarki yrði þetta endurmetið og staðan tekin að nýju miðað við það ástand sem almennt ríkti þá á fjármálamarkaði hér.