140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á yfirreið sinni yfir landið hafa nokkrir forsetaframbjóðendur haft orð á því að hér hafi myndast mikil og djúp gjá milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Það er gott að þeir hafa áttað sig á þeim brýna vanda sem lítið hefur verið gert til að leysa á Alþingi en á meðal helstu ógnana við sóknarmöguleika landsbyggðarinnar má nefna stórfelldan niðurskurð í velferðarþjónustu, skort á nauðsynlegum samfélagslegum samgöngubótum, óhóflega skattlagningu eldsneytis, andstöðu við uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar utan suðvesturhornsins og sívaxandi kröfur um að almenn jafnt sem sérhæfð starfsemi ríkisins sé staðsett á því svæði þar sem flestir búa.

Við framsóknarmenn fögnum því að á eftir verði tekið til umræðu málefni um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Það er gott að klára það mál og nauðsynlegt að fá það til atkvæðagreiðslu. En mig langar til að benda á nauðsyn þess að hér sé mótuð byggðastefna fyrir allt landið.

Ég er 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu sem leggur til að ríkisstjórnin muni móta slíka byggðastefnu en fjölmargir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram tillögur sem miða að því að hægt sé að búa á öllu landinu. Má þar nefna þingsályktunartillögu um jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningskostnaðar á landsvísu, tillögu til þingsályktunar um skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu og frumvarp til laga um breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald sem felst í því að jafna flutningskostnað á öllu landinu. (Forseti hringir.) Ég vil beina því til hæstv. ríkisstjórnar að hún beiti sér í þessum brýna málaflokki.