140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir þessa framsögu. Það er ágætt að taka smáumræðu um þetta mikilvæga mál.

Hv. þingmann fór yfir það í ræðu sinni að fyrir liggur breytingartillaga um að flýta ýmsum mikilvægum framkvæmdum, og það er gott að menn telji að rétt sé að flýta til dæmis brúnni yfir Hornafjarðarfljót og fleiri verkefnum. Hins vegar er talað um að fjárveitingar til að flýta þessum framkvæmdum komi til vegna fyrirhugaðra skattbreytinga og þá erum við að tala um veiðigjaldið eftir því sem mér skilst, samkvæmt einhverju plaggi frá ríkisstjórnarflokkunum. Spurning mín til hv. þingmanns er í fyrsta lagi þessi: Hvað gerist ef frumvarpið um veiðigjöld sem enn er ekki búið að koma í gegnum þingið verður ekki lögfest á Alþingi? Í öðru lagi, hvað ef veiðigjaldið mun ekki skila þeim fjármunum í ríkissjóð sem gert var ráð fyrir þegar þessar breytingartillögur litu dagsins ljós? Er rétt að útdeila skattfé fyrir fram, skattfé sem ekki er búið að innheimta? Það er í raun ekki búið að lögfesta þessa skatta.