140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar evran, hinn sameiginlegi gjaldmiðill Evrópu, var tekinn upp var það ekki einvörðungu efnahagsleg ákvörðun, ákvörðunin var líka pólitísk. Hún var pólitísk vegna þess að með því að taka upp hina sameiginlegu mynt var um leið tekin ákvörðun um að auka og dýpka sameiningu þeirra ríkja sem eru innan ESB.

Síðan er það svo að sú sameining hefur ekki gengið fram og það hefur þýtt að evran hefur átt erfiðara og erfiðara uppdráttar. Hvers vegna, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að grundvöllur hennar er ekki rétt lagður. Það þarf sameinaðri ríkisfjármál, miklu meiri sameiningu á því sviði, það er ekki nóg að hafa bara sameiginlega yfirstjórn peningamála. Þetta skiptir máli.

Sú staða sem er komin upp núna varðandi evruna er í sjálfu sér ekki flókin. Annaðhvort auka menn og dýpka sameiningu Evrópu eða hin sameiginlega mynt mun liðast í sundur. Hættumerkin eru hvarvetna, staða Grikklands, staða Spánar og staða Ítalíu og annarra þeirra ríkja sem núna eru á mörkunum að geta haldið sér inni í evrusamstarfinu, a.m.k. óstudd. Það var merkilegt að fylgjast með þeim yfirlýsingum sem komu frá Spáni þegar það var kallað sigur evrunnar þegar Spánn þurfti að lúta í lægra haldi og kasta inn uppgjafarplagginu og horfast í augu við það að þeir réðu ekki lengur við sín eigin fjármál. Það var auðvitað enginn sigur evrunnar, þar voru menn að horfast í augu við hinar erfiðu og óumflýjanlegu ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Þessi staða hefur auðvitað áhrif á okkur Íslendinga. Sú ákvörðun sem við tókum sumarið 2009 hér á Alþingi um að sækja um aðild að ESB byggði auðvitað á þeim forsendum sem þá voru ljósar og þá voru kunnar, m.a. um það hvað þetta bandalag væri. Nú má ljóst vera, eins og ég hef sagt hér áður, að þetta bandalag er að breytast, það er að breytast þannig að það mun verða æ líkara sambandsríki.

Margir eru alveg sáttir við þá þróun og telja hana heppilega og er hægt að færa rök fyrir því. En þegar við Íslendingar sóttum um aðild var uppi allt önnur staða en nú er. Þess vegna er það ekkert óeðlileg krafa að við endurskoðum nú afstöðu okkar til þessa máls í ljósi þess hvað er að gerast, þ.e. að ef evran á að halda þarf að breyta ESB í meira sambandsríki. Ef það verður ekki gert mun hún liðast í sundur með tilheyrandi óskaplega miklum erfiðleikum.

Ein af meginrökum þess og ein aðalástæða þess að menn voru tilbúnir til að sækja hér um aðild, margir hverjir, var einmitt sú að það væri möguleiki að taka upp hina sameiginlegu mynt þannig að valkostirnir eru þeir. En það er ekki bara evran sem er vandi Evrópu þessa dagana. Það er rétt að hafa í huga og ekki gleyma því að áfram er sá vandi sem var mjög umtalaður áður en evruvandinn komst í hámæli, sem er sú staðreynd að íbúar álfunnar eru að eldast, lífeyrissjóðakerfi Evrópu eru mjög veik og illa fjármögnuð, þannig að ofan á hinn risavaxna skuldavanda ríkjanna sem fer vaxandi dag frá degi bætist sá vandi sem menn horfa fram á varðandi lífeyrissjóðsskuldbindingar í mörgum löndum ESB. Staða álfunnar, samkeppnishæfni hennar, samkeppnisstaða hennar, fer því versnandi. Og enn og aftur: Eina lausnin sem menn hafa á þeim bænum er að auka samrunann, að verða meira sambandsríki.

Enginn óskar þess að hin sameiginlega mynt liðist í sundur. Það væri skelfileg atburðarás sem mundi valda miklum skaða og þess vegna hef ég hef þá skoðun og er sannfærður um að leiðin til aukins samruna verði farin. Ég óttast að það verði gert þannig að menn fari fram hjá hinu lýðræðislega ferli, að farið verði fram hjá kjósendum í álfunni, menn búi til alls konar sjóði og fyrirkomulag til að tryggja að hægt verði að standa með evrunni og beri slíkt ekki undir kjósendur í álfunni, af því að maður heyrir líka og sér að það er frekar tilhneiging hjá kjósendum til að styðja þjóðríkið frekar en alríkið.

Þetta er hinn stóri vandi Evrópu og (Forseti hringir.) þetta ýtir undir það að við Íslendingar endurskoðum ákvörðun okkar frá því sumarið 2009. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera hlé, láta þessa atburði ganga fram (Forseti hringir.) og síðan sé það þjóðarinnar að ákveða hvort við eigum að halda áfram með þessa umsókn.