140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki aðili að meiri hluta hv. samgöngunefndar nema í minni hluta tilvika. Það kemur þó fyrir. Að jafnaði er ég ekki hluti af meiri hlutanum en hins vegar hafa verið ákveðnar bókanir og afgreiðslur í tengslum við Vaðlaheiðargöng þar sem ég hef átt samleið með fólki úr meiri hlutanum og reyndar minni hlutanum líka. Varðandi Vaðlaheiðargöng hefur verið samstaða þvert á flokka ef við getum orðað það svo, bæði með og á móti. Menn hafa skipst þar eftir öðrum línum en venjulega í flestum málum.

Þrátt fyrir að ég hafi eins og margir aðrir þingmenn áhyggjur af Vaðlaheiðargöngunum, þ.e. út frá forsendum þeirra áætlana sem þar liggja til grundvallar og þeim áætlunum sem þar hafa verið settar upp til þess að skoða annars vegar tekjur og hins vegar gjöld, held ég að ég eigi ekkert endilega samleið með öllum í þeim ágæta meiri hluta hvað varðar afstöðuna til veggjalda. Ég er ekki í grundvallaratriðum á móti því að taka veggjöld. Ég tel að veggjöld geti komið vel til greina víða. Ég er í rauninni alveg opinn fyrir slíkum hugmyndum. Það er ekki sá þáttur sem vefst fyrir mér í sambandi við Vaðlaheiðargöngin, heldur fyrst og fremst ríkisábyrgðin á framkvæmdinni sem ég get ekki alveg fengið til að ganga upp í huga mér.

Varðandi veggjöld og fjármögnun vegaframkvæmda til lengri tíma litið held ég að við eigum að skoða það með opnum huga og velta fyrir okkur hvernig við getum breytt gjaldtöku. Menn hafa rætt um ýmsar nýjar tæknileiðir í því sambandi og ég tel að við eigum að skoða þær með opnum huga.