140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála síðustu orðum sem féllu af vörum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um mikilvægi þess að tengja saman kjarna og koma á samgöngum þar sem tengingar vantar, verður mér sérstaklega hugsað til Vestfjarða og Dýrafjarðarganga.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því hann ræddi um heiðursmannasamkomulag sem hann sagði að hefði verið gert á níunda áratugnum um röðun jarðganga, það hefur þá nota bene átt sér stað áður en jarðgangaáætlun hin fyrsta leit dagsins ljós og hlaut samþykki hér í þinginu. Hvernig var það heiðursmannasamkomulag innsiglað? Gengu menn undir jarðarmen? Eða voru teknar myndir, var það handsalað? Hverjir stóðu að því samkomulagi? Sitja þeir hinir sömu enn á þingi? Telur hv. þingmaður að núverandi þing sé á einhvern hátt bundið af samkomulagi þingmanna fyrir einum og hálfum áratug og sennilega einum sex eða sjö kosningum síðan? Mig langar til að fá aðeins úr þessu skorið hjá hv. þingmanni.

Síðan vegna breytingartillögu hans um að koma Fjarðarheiðargöngum hér á dagskrá. Hefur þingmaðurinn séð fyrir því hvaðan hann vill taka þá fjármuni og hvaða framkvæmdum ætti þá að hreyfa til á móti?