140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjögurra ára samgönguáætlun 2011–2014 og einnig samgönguáætlun 2011–2022. Maður hlýtur reyndar að gera athugasemd við að verið sé að smíða áætlun um ár sem er liðið, það er nú kannski fyrsta athugasemd mín.

Ég batt miklar vonir við það þegar þetta kerfi var tekið upp — fyrsta áætlunin var 2003–2014 — að þetta mundi slá á þær deilur sem eru árvissar um framlög til vegamála sem virðist vera mikið áhugamál sumra þingmanna en minna áhugamál annarra. Það eru þá aðallega landsbyggðarþingmenn sem hafa mikinn áhuga á því að byggja brú hér og vegarstubb þar, flugvöll o.s.frv. Það er kannski eðlilegt vegna þess að þessi mál brenna miklu meira á fólki úti á landi en fólki á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef hins vegar þá sýn að við notum öll vegi landsins. Ég held ég hafi ekið í gegnum öll jarðgöng landsins og þótt það ágætt. Ég geri líka ráð fyrir að flestir utanbæjarmenn hafi notað vegakerfið í Reykjavík og lent þar í að bíða á rauðu ljósi í langri röð og þá ekki síst á morgnana — reyndar hefur dregið úr því, frú forseti, eftir að bensínið varð svona dýrt. Það má kannski segja að það hafi lagað stöðuna. Hrunið og mikil skerðing á kaupmætti almennings, sem er ekki beint jákvætt, kemur þá þannig út að umferðin verður liprari.

Ég tel alltaf að fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlanir varði alla þingmenn og menn ættu að finna út undir hvaða formerkjum beri að ganga. Allt er það talið upp í þessum þingsályktunum um samgönguáætlanir og það er líka allt talið upp í þessari tólf ára áætlun, allt það sem hafa á til hliðsjónar. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Við gerð samgönguáætlunar skal meðal annars byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Við gerð samgönguáætlunar skal jafnframt taka mið af eftirfarandi markmiðum:

a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,

b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla …“

Þetta er það sem menn deila um, hvað sé samræmd forgangsröðun, hvað sé skynsamlegt að gera. Deilan stendur um forgangsröðunina.

Samkvæmt áætlun er jarðgöngum til dæmis raðað í ákveðna röð. Svo allt í einu fundu menn leið til að fara fram hjá þessu og grípa til fyrirbærisins Vaðlaheiðarganga. Ég þarf nú að lesa það því að í nefndaráliti meiri hlutans er sérstök bókun frá flestum ef ekki öllum, sem er mjög óvenjulegt, meira að segja fleirum en þeim sem skrifa undir nefndarálitið. Þá er sérstök bókun um forgangsröðun jarðganga þar sem segir, með leyfi forseta, að ákveðnir þingmenn — ég ætla ekki að telja þá upp þó að þeir séu nafngreindir í skjalinu — telji einboðið að frumvarpi til laga um Vaðlaheiðargöng verði vísað til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd áður en það verði afgreitt frá Alþingi.

Í bókuninni segir, með leyfi forseta:

„Eins og berlega hefur komið í ljós er um ríkisframkvæmd að ræða og eðlilegt að framkvæmdin raðist inn í samgönguáætlun og sé rædd samhliða henni. Ekki er hægt að samþykkja Vaðlaheiðargöng án samhengis við almenna forgangsröðun jarðganga í landinu enda væri þá verið að brjóta gegn sanngjörnum vinnureglum. Gerð Vaðlaheiðarganga á fyrirliggjandi forsendum riðlar eðlilegri forgangsröðun framkvæmda og kallar á uppstokkun og endurmat á þeirri nálgun sem hingað til hefur verið fylgt.“

Svo mörg voru þau orð.

Ég tek undir þetta allt saman. Ég tel að Vaðlaheiðargöng, eins góð og þau eru — þau bæta samgöngur í því héraði verulega — brjóti þá samgönguáætlun sem er í gangi. Þó að veggjöld verði innheimt finnst mér áhættan við innheimtuna þvílík að töluverðar líkur séu á því að ríkissjóður sitji uppi með alla framkvæmdina í fanginu. Það er kannski það sem menn þurfa að forðast, fyrir nú utan það að menn gætu alveg séð fyrir sér að sambærilegt módel yrði tekið upp annars staðar. Eins með Norðfjarðargöng — til þess að setja þau strax í framkvæmd, í virkni og útboð, gætu fyrirtækin á svæðinu, álverið annars vegar og fiskvinnslufyrirtækin beggja megin, lofað greiðslu veggjalda fyrir starfsmenn sína, einhvers konar skuggagjöldum. Þau gætu tryggt ákveðnar tekjur til verkefnisins sem á margan hátt væru öruggari en tekjurnar á bak við Vaðlaheiðargöng en þær tekjur byggjast á vali einstaklinga hverju sinni, hvort þeir vilji keyra yfir Víkurskarð í góðu veðri ef svo ber undir eða fara í gegnum dimm göng. Það má líka velta fyrir sér tilganginum á bak við ferðalagið hverju sinni. Eru menn á ferð í þeim tilgangi að skoða landið og njóta þess eða eru þeir að flýta sér til vinnu? Ég tel að Vaðlaheiðargöng geti gefið mjög slæmt fordæmi í því sem við höfum byggt upp.

Og það er fleira sem ég vil nefna, frú forseti. Samkvæmt þessum tillögum, bæði til fjögurra og tólf ára — mér finnst mjög skynsamlegt að fyrst reyni menn að skipta öllum framkvæmdum í landinu sem snerta siglingar, flug og vegaframkvæmdir og ég hefði viljað bæta tölvu- og símtengingum inn í þetta líka, það eru líka ákveðnar samgöngur. En það er þá búið að raða þessu upp í ákveðna röð og búið að slást um það í hvaða röð á að vinna hlutina og þá finnst mér að menn þurfi að halda sig við það nema forsendur breytist verulega.

Í nefndaráliti meiri hlutans er rætt um að jákvætt skref hafi verið stigið með þeim vinnuferlum sem notaðir eru við gerð samgönguáætlunar. Það er ekki rökstutt nánar en maður treystir því. Bent er á að mikilvægt sé að framkvæmdir séu sjálfbærar umhverfislega. Þetta er eiginlega tekið beint upp úr lögum sem gilda um vegáætlanir.

Þeir leggja fyrst og fremst til að framlög undir liðnum tengivegir og malbik verði aukin. Vel er hægt að taka undir það. Ég get í raun tekið undir allt það sem meiri hlutinn leggur til, enda eru það allt góð og gegn verkefni. Ég er sérstaklega ánægður með það sem nefnt er bæði í vegáætluninni sjálfri og í nefndarálitinu að leggja eigi áherslu á svokallaða núllsýn, þ.e. að engin slys eigi að verða í umferðinni, að stefnt sé að því. Þó að við séum nokkuð langt frá því enn hefur slysum fækkað nokkuð. Ég hygg að með skynsamlegri vegagerð, sem miðar að því að auka öryggi, sé hægt að nálgast þetta markmið, en það getur kannski orðið langsótt að ná því alveg af því þá kemur mannlegi þátturinn inn í, alls konar breyskleiki mannskepnunnar sem stýrir bílnum. Það getur vel verið, frú forseti, að eftir einhver ár verði sjálfstýrðir bílar komnir á markaðinn. Reyndar er verið að gera tilraunir með það úti í heimi, þ.e. bíla án ökumanns.

Meiri hlutinn segir í nefndaráliti sínu, frú forseti:

„Í ljósi framangreinds“ — þá er verið að ræða um umferðaröryggi, eðlilega þróun atvinnu- og þjónustusvæða, fjölgun ferðamanna og lengingu ferðamannatímans — „vill meiri hlutinn árétta og vekja athygli á því að vegna bágs efnahagsástands verður ekki hægt að sinna mörgum brýnum samgönguverkefnum og minni framkvæmdir verða því um allt land.“

Þetta segja þeir en leggja jafnframt til mjög mikla aukningu útgjalda.

Einnig er bent á að vissir landshlutar búa við gjörsamlega óviðunandi samgöngur. Vestfirðir eru þá nefndir sérstaklega og verð ég að taka undir það. Ég hef reyndar ekki komið til Vestfjarða í nokkur ár en þegar ég var þar síðast var ástandið verulega slæmt. Mér skilst að það hafi nú eitthvað batnað en það mátti líka batna töluvert og þá sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum.

Einnig er bent á að vissar vegaframkvæmdir eru vinnuaflsfrekari en aðrar eins og brúargerð og slíkt og lögð er áhersla á það.

Á bls. 3 í nefndaráliti meiri hlutans stendur svo merkileg setning, með leyfi forseta:

„Samgönguáætlun tók breytingum við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að beina viðbótarfé til samgöngumála á því árabili sem samgönguáætlun tekur til, ekki síst með það fyrir augum að flýta fjárfrekum verkefnum sem ella hefðu tafist. Af þessum sökum verður hægt að flýta jarðgöngum og öðrum brýnum samgöngubótum. Tillögur meiri hlutans taka mið af þessum breyttu forsendum.“

Ekkert meira er sagt um þetta. Mér finnst nefndarálit meiri hlutans reyndar frekar magurt og eiginlega mjög magurt. Ekki er til dæmis nefnt að framkvæmdirnar séu háðar skattheimtu á útgerð á Íslandi. Það hefur komið fram í umræðunni og þannig verið fjallað um það að ég verð að fara sérstaklega í gegnum það. Menn hafa sagt, þegar þeir hafa verið spurðir, að þetta séu nú góð verkefni og þeir styðji þau og þar með styðji þeir veiðigjald á útgerðina, þ.e. verkefnin eru sem sagt forsenda þess að þeir styðja veiðigjaldið. Mér finnst ekki siðlegt að segja að þar sem menn fallist á ákveðin útgjöld séu þeir búnir að samþykkja að afla tekna sem eru mjög umdeildar og mjög vafasamar. Síðast í dag kom fram að það er spurning hvort veiðigjaldið sé yfirleitt rétt reiknað, hvort ekki hafi gleymst að taka inn afskriftir. Ég kem kannski inn á það, frú forseti, hvernig mér sýnist það vera.

Ef ég kaupi mér bíl og tek til þess lán sem ég borga í lok tímans, eftir 10 ár — ég borga alltaf vexti af láninu, það er það sem þeir heimila — þarf ég að borga eitt bílverð, ég geri ráð fyrir að lánið sé verðtryggt, en bíllinn er ónýtur. Þá þarf ég að fara að borga eitthvað sem ég á ekki til af því að engar afskriftir eru inni í dæminu. Þetta er náttúrlega veigamikil veila í þessum veiðigjaldshugleiðingum ef rétt er. Ég held að menn þurfi að skoða allt það dæmi frá byrjun.

Svo ætla ég að fara í gegnum breytingartillögur meiri hlutans sem hér var talað mjög glaðlega og fjálglega um í dag. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem sagði að nefndin vildi bæta 400 milljónum við 500 milljóna fjárveitingu — þetta er nærri tvöföldun — til lagningar bundins slitlags á tengivegi. Hver vill það ekki, frú forseti? Þetta er að verða mjög skemmtilegt. En ég vil benda á að þessi setning ein og sér er fjárlög. Það að leggja til 400 millj. kr. aukningu á ríkisútgjöldum á að vera í fjárlögum eða fjáraukalögum en ekki í svona almennum lögum. Menn geta hreinlega ekki skuldbundið ríkissjóð með þessum hætti.

Hér stendur líka:

„Lögð er til árleg fjárveiting að upphæð 100 millj. kr. til breikkunar einbreiðra brúa.“

Þarna er líka verið að skuldbinda ríkissjóð án þess að það sé í fjárlögum.

Einnig er lögð til 100 milljóna árleg fjárveiting til hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík. Það eru eiginlega bara tvær framkvæmdir sem snúa að Reykjavíkursvæðinu. Það er líka lagt til að flýta lokum gerðar Arnarnesvegar frá Rjúpnaheiði að Breiðholtsbraut um að minnsta kosti eitt ár. — Ég mundi nú, ef eitthvað er, frú forseti, vilja byrja á að þýða þetta yfir á íslensku, þetta er ekki sérlega gott orðalag. Væri ekki hægt að orða það þannig að flýta eigi því um eitt ár að ljúka gerð Arnarnesvegar í stað þess að segja að flýta eigi lokum gerðar Arnarnesvegar?

Þetta eru þær framkvæmdir sem eru nálægt mínu kjördæmi, Arnarnesvegur er reyndar ekki í mínu kjördæmi en hjóla- og göngustígarnir eru í mínu kjördæmi. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég hef líklega notað þessa göngustíga meira en flestir aðrir, hleyp þarna, er á línuskautum o.s.frv., en það er voðalega lítil umferð á þessum vegum, mjög lítil. Ég hef oft hugsað um allar þær milljónir sem settar hafa verið í þessa stíga — þetta er ekki góð fjárfesting. Notkunin verður þá að aukast stórlega til að eitthvert vit sé í þessu. En vel má vera að það takist einhvern tímann að koma Íslendingum til að fara á reiðhjóli til vinnu. Mér finnst veðrið bara svo rysjótt hér á landi, það er ekki beint gáfulegt.

Af því að tími minn er nú að verða útrunninn langar mig til að koma inn á annað atriði sem ekki hefur verið rætt mikið en það er þróun á bensín- og olíuverði og sú breyting sem orðið hefur á bílum. Nýir bílar eyða miklu minna en bílar gerðu áður. Til eru hybrid-bílar og í haust koma meira að segja rafbílar, hreinir rafbílar, sem eru reyndar nokkuð dýrir að því mér sýnist. Rafbílarnir ná kannski 40–50 kílómetrum í daglegum akstri venjulegrar fjölskyldu, hjá þeim sem ekki eru mikið að vinna úti á landi, kannski ekki hjá þingmönnum. Rafbílarnir mundu sem sagt nægja fólki á höfuðborgarsvæðinu til að fara til vinnu og til að snatta í bænum alla daga. Þeir eru bara tengdir við rafmagn á næturnar, kostar sáralítið og gefa Vegagerðinni engar tekjur. Auk þess eru þeir með bensínmótor sem gerir að verkum að hægt er að keyra 800 kílómetra með sameinuðu átaki bensínmótors og rafgeymis. Þá er rafgeymirinn hlaðinn þegar keyrt er niður brekkur o.s.frv. eða þegar bremsað er. Þetta verður til þess að tekjur til vegagerðar lækka mjög mikið, reyndar einnig útgjöld heimilisins, þannig að það er svo sem ánægjulegt. Það mun breyta öllum forsendum hvað varðar tekjuöflun til vegagerðar.

Það var nú rætt fyrir mörgum árum í efnahags- og viðskiptanefnd, þegar ég var þar formaður, að taka upp mælingu á veganotkun og borga gjald fyrir það. Því skipulagi er að mér skilst verið að koma á í Evrópusambandinu ef ekki er þegar búið að koma því á. Þá er hægt að láta menn borga mismunandi gjald til dæmis fyrir malarvegi og góða vegi, mismunandi gjald fyrir snjóþunga vegi o.s.frv. og láta menn borga í jarðgöng bara sjálfvirkt, GPS-tæknin gerir að verkum að það er vitað hvenær menn fara í gegnum göng. Maður getur þá líka greitt sjálfvirkt af bílastæði, tæknin veit alltaf hvar bíllinn er staddur. Fyrir utan það getur eigandinn alltaf vitað hvar bíllinn hans er og eftir það er nánast útilokað að stela bílum. Um leið og bílnum er stolið og reynt að rífa tækið úr sendir það síðustu skilaboðin um að verið sé að rífa það úr.

Þetta tæki er á margan hátt gott. En gallinn við það, sem varð til þess að menn urðu á sínum tíma fráhverfir því hér á landi, fyrir um það bil sex árum, var sá að persónuvernd var ekki nægilega tryggð. Sá sem hafði yfirumsjón með kerfinu vissi nákvæmlega hvar ákveðinn bíll var staddur og þar með væntanlega eigandinn eða ökumaðurinn, og menn voru dálítið uggandi yfir því. Með sama hætti ættum við að vera uggandi út af GSM-símunum. Þar veit kerfið nákvæmlega hvar fólk er statt, meira að segja á hvaða hæð í fjölbýlishúsi. Ég held því að menn ættu að horfa til þess að taka þetta kerfi upp fyrr en seinna.