140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að þetta svar hv. þingmanns, orðaskipti okkar og ræða hv. þingmanns, sýni mikilvægi þess að við gaumgæfum þetta mál mjög vel. Ég vil upplýsa þingheim, og um leið hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, um að ég hef heimildir fyrir því sem ég sagði áðan. Það hafa haft samband við mig aðilar sem segja að sú staðreynd að menn sjái fram á þetta ríkisrekna leigufélag hafi nú þegar haft þau áhrif að verið sé að segja upp samningum og verið að setja fótinn fyrir rekstur annarra sem nú leigja út húsnæði. Það sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, og ég deili þeim áhyggjum með honum, er nú þegar að verða að veruleika. Ég get ekki annað séð en að nefndin verði strax að fara yfir það mál.

Hv. þingmaður notaði samlíkinguna sem ég notaði í fyrstu ræðu minni um málið að þetta mætti ekki verða eins og fíll í postulínsbúð. En nú þegar er svolítið af postulíni farið að brotna. Það væri fullkomlega ábyrgðarlaust af okkur, virðulegi forseti, hafandi grunsemdir um það að kanna það ekki betur og fara yfir það mál.

Virðulegi forseti. Ég tel líka mikilvægt að fara yfir markmiðin. Mér finnst sýnt að það sem snýr að landsbyggðinni ætti að vera hlutverk Íbúðalánasjóðs, en gæta þarf þess að það sem snýr að öðrum þáttum ýti ekki undir þenslu. Og bara lánafyrirgreiðsla sjóðsins á árinu (Forseti hringir.) 2008, undir forustu þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var gríðarleg og hefur valdið skelfilegum afleiðingum, er alveg sérstök ástæða til að skoða þessi mál.