140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri sannarlega skemmtileg tilbreyting að geta fengið að svara fyrir ríkisstjórnina og haft einhver áhrif á það sem hún vildi síðan gera. Ég er ekki viss um að það mundi út af fyrir sig breyta miklu hvað ég segði í nafni ríkisstjórnarinnar, ég hygg að lítið yrði farið eftir því frekar en fyrri daginn enda sést það á árangri ríkisstjórnarinnar.

Að öðru leyti og öllu gamni slepptu er rétt það sem hv. þingmaður segir. Það er mjög mikilvægt að reyna að samræma þessi viðbrögð af ástæðum sem ég hef nefnt, bæði vegna þess að það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem eru t.d. í þeirri stöðu að hafa tekið lán í góðri trú hjá Íbúðalánasjóði, væntanlega vegna þess að þeir voru sannfærðir um að þar væru bestu kjörin og mestu úrræðin, og eins og ég nefndi áðan vegna þess að þetta er ósanngjarnt þegar við skoðum málið í samhengi við landsbyggð/höfuðborgarsvæði og hef ég fært rök fyrir því.

Það sem vekur líka athygli og ég tel ástæðu til að undirstrika hérna er að samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, er sérstök eftirlitsnefnd sem á einmitt að fylgjast með öllum slíkum úrræðum og hvernig unnið er úr þeim af lánastofnunum. Þessi nefnd skilaði frá sér skýrslu sem er um leið ábendingar til okkar, löggjafans, um það sem við þurfum sérstaklega að gæta að. Það er athyglisvert að nefndin nefnir sérstaklega þetta samræmi og að á það hafi skort. Komið hefur fram að túlkun lánastofnana á þessu samkomulagi sem upphaflega var grunnurinn að lagasetningu á sínum tíma um úrræði fyrir skuldug heimili hefur verið mismunandi þannig að skuldarar fá mjög mismunandi meðferð eftir því við hvaða lánastofnun þeir eiga viðskipti. Hvatt er til þess að reynt sé að auka þetta samræmi til að menn fái sem líkasta meðferð á vandanum. Í þessu sambandi vekur nefndin einmitt athygli á því sem er á vissan hátt grunnurinn í breytingartillögu minni. Ég hefði þess vegna talið að ríkisstjórnin ætti að bregðast við þessu, vilji hún taka hlutverk þessarar nefndar alvarlega og (Forseti hringir.) gera hana að einhverju öðru en puntnefnd.