140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en varað við því sem hv. þingmaður sagði um að Íbúðalánasjóður tæki upp sambærileg kjör og Landsbankinn í uppgreiðslu lána eða því að skila íbúðum, svokölluðu lyklamáli. Landsbankinn sem er ríkisbanki að meginhluta tók ákvörðun um að fólk gæti skilað íbúðinni sinni en aðrar eignir manna voru ekki teknar inn í það dæmi þannig að maður sem átti yfirskuldsetta íbúð gat skilað henni en gat átt annars staðar eignir, svo sem innstæður, hlutabréf, sumarbústað, hesta o.s.frv., skuldlaust. Það finnst mér ófélagslegt kerfi, frú forseti, og ég spyr hv. þingmann: Getur verið að hann vilji taka það inn í Íbúðalánasjóð og velta þeim kostnaði yfir á skattgreiðendur? Það er enginn annar sem greiðir hjá Íbúðalánasjóði en reyndar er heldur enginn annar sem greiðir hjá Landsbankanum það tap sem verður við það að fólk sem á eignir getur losnað við skuldirnar með því að afhenda eina eign.

Frumvarpið sem við ræðum er vegna kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA um að Íbúðalánasjóður standi ekki betur en aðrir í samkeppni og ég spyr hv. þingmann: Er Íbúðalánasjóður í samkeppni, er þetta banki sem er í samkeppni við aðra banka og er hann þá ekki félagslegur? Væri ekki miklu nær að stefna að því að gera Íbúðalánasjóð félagslegan, minnka hann verulega, láta hann veita þeim lán sem eru félagslega illa settir, búa til dæmis á svæðum sem ekki fá lán frá hinum bönkunum?