140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum eða þeim stofnunum og fyrirtækjum sem annast mundu fornleifaskráningu þá eru þetta verktakar fyrir sveitarfélögin í þessu dæmi. Þeir eru ekki sjálfstæðir samningsaðilar nema hvað varðar kaup og kjör og sannfæringu um að þeir valdi því hlutverki sem þeir taka að sér.

Hér er fyrst og fremst um að ræða samkomulag milli Minjastofnunar Íslands og skipulagsyfirvalda á hverjum stað, þ.e. sveitarfélaganna. Ég ætla ekki að mæla fyrir um það hvernig það verður gert en ég geri ráð fyrir að það verði breytilegt eftir sveitarfélögum, svo ég taki upp orð frá hv. þingmanni, því að hvert sveitarfélag er auðvitað einstakt um þetta. Það eru engin tvö sveitarfélög eins í landinu að þessu leyti. Þau eru líka mjög mislangt komin og standa mjög ójafnt að vígi gagnvart þessu verkefni. Sum eru landmikil og fámenn og rík af minjum, eins og það sveitarfélag sem minnst var hér á. Önnur hafa þegar kannað allar þær minjar sem menn vita nokkurn hlut um. Við skulum til dæmis nefna sveitarfélagið vestur af okkur, sveitarfélagið Seltjarnarnes. Ég held að það eigi ekki mikið eftir. Ef ég veit rétt þá er ekki mikil fornleifaskráning eftir þar. Það hefur líka komið þeirri skráningu sem fram hefur farið ágætlega á framfæri við almenning eins og menn sjá þegar þeir ganga þar stígana kringum sveitarfélagið. Ég ætla ekki að fara lengra út í það.

Ég held að þetta verði þannig að Minjastofnun geti einmitt samið við hvert sveitarfélag fyrir sig og í raun og veru felst í því að taka við áætlunum sveitarfélags sem séu innan skynsamlegra marka um það hvernig sveitarfélagið ætlar að klára þessi mál og hvernig það tengist þá aðalskipulagsgerðinni. Taka verður fram að sveitarfélög í landinu eru öll með aðalskipulag núna að því er ég best veit. Spurningin er því um endurskoðun á því aðalskipulagi eða hlutum þess því að umhverfisráðherra hefur líka rétt til að skrifa undir hluta af aðalskipulagi.