140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eftir svar hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur stendur óhaggað það sem ég sagði, það verður ekki hægt að hafa yfirlit yfir allar þær rannsóknir sem fram fara og dæmið um göngutúrinn var ágætt. Málið er nefnilega það að fornleifarannsóknir fara fram með allt öðrum hætti í dag en þeim að grafa skurð. Það þarf ekki jarðrask til, menn byrja á allt öðrum hlutum. Það eru teknar innrauðar myndir og eins og hv. þingmaður sagði er farið í gömul gögn og farið yfir sögu staðanna sem um ræðir. Þessar fjarmyndir, þessar innrauðu myndir eru kannski grunnur rannsókna manna og jarðrask þarf ekki að koma til. Ég er ekki sannfærð eftir þetta svar, herra forseti.

Hvað varðar 40. gr. skil ég, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að það þarf að vera sveigjanleiki í skilaskyldunni og eitt ár miðað við það sem alla vega hingað til hefur tíðkast, engin skil, vil ég leyfa mér að fullyrða að er ansi stórt stökk. Ég hefði talið nauðsynlegt að hafa eitthvert viðmið í lögunum sem stofnunin gæti þá veitt undanþágur frá eða framlengt með tilteknum hætti og tel í reynd miður að svo sé ekki. Ég óttast að þetta skapi óþarfa þrýsting á stofnunina og þessum hlutum verði (Forseti hringir.) ekki komið nægilega hratt í lag því að það er ólestur á þeim.