140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Það hafa verið ágætisumræður hér í morgun um þetta frumvarp til laga um menningarminjar. Eins og fram hefur komið í umræðunni virðist nefndarálitið sem lagt er fyrir í þessu máli í það minnsta vera undirritað af öllum hv. þingmönnum þingnefndar, en nokkur atriði hafa komið fram í umræðunum í morgun sem menn hafa auðsjáanlega efasemdir um og eiga hugsanlega að vera með öðrum hætti.

Við 16. gr. frumvarpsins hefur til að mynda hv. þm. Mörður Árnason lagt fram breytingartillögu sem er breyting á 1. mgr. 16. gr. Hann leggur til að orðalagi verði breytt og þar með breytist vinnulag við skráningu vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda. Hv. þingmaður leggur til að orðalag verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út skal skráning ætíð fara fram á vettvangi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og er heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma.“

Þetta er sem sagt tillaga frá hv. þm. Merði Árnasyni. Nýlega barst okkur bréf vegna þessarar breytingartillögu sem var sent til hv. þingmanns frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga en afrit var sent til nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd, en sá sem hér stendur er fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri nefnd. Þar er fjallað um þessa breytingartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar, þ.e. breytingar á 16. gr., þar sem m.a. er sagt — ég held að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað með því að fjalla um þetta — að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi áhyggjur af þessari tillögu og með henni sé verið að tengja fornleifaskráningu við svæðisskipulagsgerð.

Svæðsskipulagi var breytt mikið við samþykkt skipulagslaga árið 2010 og á í rauninni svæðisskipulagsáætlun að fela í sér stefnu um þróun á þeim sviðum sem svæðisskipulagsáætlunin nær til frekar en að í svæðisskipulagi felist bindandi ákvarðanir um landnotkun. Bent er á í bréfinu frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga þau meginrök Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi breytingar á 16. gr. frumvarpsins að fornleifaskráning sé í raun óviðkomandi svæðisskipulagi og það afturhvarf sem felst í breytingartillögunni þyki þar af leiðandi vera skref aftur á bak miðað við ákvæði frumvarpsins.

Síðan er því velt upp hvort umhverfis- og samgöngunefnd hafi tekið þetta mál eitthvað til umfjöllunar en það skal upplýst hér að þessu máli var á sínum tíma, kannski eðlilega, ekki vísað til umhverfis- og samgöngunefndar en þegar þingmönnum berast bréf sem þetta setjast þeir vissulega yfir málið og einkum og sér í lagi vegna þess að óbeint tengist þetta starfi umhverfis- og samgöngunefndar.

Þingmönnum hafa líka borist athugasemdir frá fleirum um 16. gr., eins og frá Birnu Lárusdóttur fornleifafræðingi sem sendi þingmönnum bréf. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um menningarminjar […] Í 16. gr. er gerð breyting á ákvæði um fornleifaskráningu. Samkvæmt því þarf ekki að skrá fornleifar á vettvangi nema þar séu fyrirhugaðar framkvæmdir af einhverju tagi. Fornleifaskráning er þar með orðin að heldur leiðinlegu og óhjákvæmilegu formsatriði sem þarf að afgreiða áður en framkvæmdaleyfi er gefið út eða deiliskipulag afgreitt. Í þessu er fólgið bæði metnaðarleysi og mikill misskilningur. Fornleifaskráning er ekki bara nauðsynlegt tæki til að koma í veg fyrir skemmdir á minjum. Fornleifar eru menningarverðmæti ekki síður en t.d. handrit, örnefni og þjóðsögur og heildarskráning á þeim ætti að vera metnaðarmál hjá íslenskum stjórnvöldum. Fornleifar eru gríðarlega mikilvægur hluti af menningarsögu þjóðarinnar, þær eru víða ráðandi þáttur í landslagi og þær veita nýja innsýn í sögu menningar og búskaparhátta.“

Þarna er 16. gr. gagnrýnd með öðrum hætti en Samband íslenskra sveitarfélaga gerði.

Nefndarálitið frá allsherjar- og menntamálanefnd er, eins og ég sagði áðan, undirritað af einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins, tveimur þingmönnum frá Vinstri grænum, tveimur þingmönnum frá Sjálfstæðisflokknum og tveimur þingmönnum frá Samfylkingunni og einn þingmaður var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Það er því þverpólitísk aðkoma að nefndarálitinu. Þar segir varðandi þessa 16. gr., með leyfi forseta:

„16. gr. frumvarpsins fjallar um skráningu vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda. Í gildandi lögum er ekki skýrt kveðið á um að skráning menningarminja skuli fara fram á vettvangi. Bent var á við umfjöllun um málið að síðastliðinn áratug hefur skráning verið unnin með öðrum hætti en með vettvangsskoðun, eftir rituðum heimildum um búsetu, ljósmyndum úr lofti, vettvangskönnun á hluta svæðis o.s.frv. Bent var á að við gerð aðalskipulags lægju oft stór landsvæði til grundvallar og að kostnaður við rannsóknir á vettvangi væri á því stigi afar mikill fyrir sveitarfélögin.“

Svo kemur að 1. málslið 1. mgr. sem hefur verið vitnað til að gera eigi breytingar á, m.a. í breytingartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar:

„Í 1. málslið 1. mgr. er kveðið á um að áður en gengið sé frá aðalskipulagi skuli liggja fyrir upplýsingar sem gefi greinargóða mynd af menningarminjum innan sveitarfélags. Í 2. málslið 1. mgr. er hins vegar mælt fyrir um að þegar landnýtingaráform liggja fyrir samkvæmt aðalskipulagi skuli skráning fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja fara fram á vettvangi á þeim svæðum sem fyrirhugað er að nýta sem atvinnu- eða íbúðarsvæði áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út. Á þessu stigi eru gerðar auknar kröfur til fornleifaskráningar í þá veru að skráning fari fram á vettvangi, ekki aðeins á fornleifum heldur einnig á friðuðum og friðlýstum húsum og mannvirkjum, þ.e. áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út. Þetta eru umfangsmeiri kröfur en mælt er fyrir um í gildandi lögum.“

Það er greinilegt, virðulegi forseti, að töluvert skiptar skoðanir eru á þessari breytingu á 16. gr. Ég hef rakið hér sjónarmið og breytingartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar. Síðan hef ég rakið skeyti sem okkur fulltrúum í umhverfis- og samgöngunefnd hefur borist frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og svo það sem okkur þingmönnum hefur borist frá Birnu Lárusdóttur fornleifafræðingi. Ég heyri það líka á umræðunum hér að um 16. gr. eru skiptar skoðanir. Sá sem hér stendur áskilur sér því fullan rétt til að skoða þessi mál betur áður en kemur að atkvæðagreiðslu og hyggst gera það. Ég hef hlýtt á þær umræður sem verið hafa hér í gangi og heilt yfir verð ég að segja að við fyrstu sýn tek ég undir það sem kemur frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Ég áskil mér hins vegar rétt til að skoða þessi mál, sérstaklega þegar okkur þingmönnum berast tölvupóstar og skeyti um að gera slíkt.

Aðeins að öðru í lokin. Ég velti fyrir mér þegar breytingartillögur nefndarinnar eru skoðaðar að lagt er til í 1. mgr. 8. gr. að við skipan í fornminjanefnd, sem er meiningin að verði skipað í til fjögurra ára í senn, gerði frumvarpið ráð fyrir að Félag fornleifafræðinga tilnefndi einn fulltrúa, Félag norrænna forvarða – Íslandsdeild einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga mundi tilnefna einn fulltrúa og síðan mundi ráðherra skipa tvo fulltrúa án tilnefningar og annar þeirra skyldi verða formaður en hinn varaformaður og hann yrði þá skipaður úr hópi nefndarmanna og varamenn yrðu síðan skipaðir með sama hætti. Nefndin leggur hins vegar til, ef ég skil þetta rétt, að annar fulltrúi ráðherra verði skipaður af Rannís, að rannsóknarsjóðurinn Rannís fái þarna einn fulltrúa. Ég geri svo sem ekki beinar athugasemdir við það nema að það hefði verið forvitnilegt að sjá rökstuðninginn á bak við þá breytingu í nefndaráliti án þess að ég vilji gera lítið úr.

Varðandi málið í heild er greinilegt að allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið það mjög samstiga. Þó vil ég segja að þrátt fyrir að mér hugnist sú hugsun sem liggur að baki 16. gr. þá ber okkur þingmönnum vissulega skylda til þegar okkur berast bréf og annað að skoða þau. Einkum og sér í lagi ber manni hrein og klár skylda til að skoða mál gaumgæfilega þegar spurt er að því hvort aðrar nefndir þingsins eins og umhverfis- og samgöngunefnd hafi skoðað málið.

Ég hef fylgst vel með þessari umræðu og ætla að gera það áfram og meta síðan niðurstöðuna áður en kemur að atkvæðagreiðslu.