140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða um óvissuna um störf þingsins. Óvissan er nánast orðin að vissu. En mig langar til að spyrja um 54. gr. stjórnarskrárinnar. Þar stendur:

„Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni …“

Á dagskrá í dag er engin fyrirspurn til ráðherra og ekki heldur um störf þingsins og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort svo verði áfram á þessu sumri, sem við eigum eftir að ræða ítarlega, hvort ekki verði örugglega gert ráð fyrir því að ráðherrar sitji fyrir svörum.