140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og skýra afstöðu. Þetta er náttúrlega spurning um vandamál úrskurða, það vantar úrskurði um hvað er heimilt og hvað er ekki heimilt og í því skjóli skáka sumir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann þekki frumvarpið sem Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður, flutti á Alþingi um að flýta dómum sem varða hrunið. Var það rætt í nefndinni hvaða afleiðingar það hefur haft að samþykkja ekki það frumvarp á sínum tíma, hvaða afleiðingar það hefði haft ef Hæstiréttur og allt dómskerfið hefði gefið hrunmálum forgang til að úrskurða, hvort við værum þá ekki nær réttum skilningi á einkarétti kröfuhafa og skuldara.