140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

framhaldsskólar.

715. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum, frumvarp sem nær til réttar og ábyrgðar nemenda og síðan efnisgjalda.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu og einnig bárust nefndinni umsagnir um málið frá Barnaheillum, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Siðmennt, Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð og umboðsmanni barna.

Í 33. gr. gildandi laga um framhaldsskóla er kveðið á um skólareglur og meðferð mála. Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess ákvæðis komi nokkur ákvæði um rétt nemenda og ábyrgð þeirra og um skólabrag. Kveðið er á um það í frumvarpinu að skólinn sé vinnustaður nemenda og að störfum skuli haga þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga líka að hafa tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kveðið er á um ábyrgð nemenda á eigin námi, framkomu og samskiptum.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á laggirnar fagráð sem er áþekkt fagráði í grunnskólum sem nær til ýmissa eineltismála. Það er af hinu góða og hugsanlega er hægt að horfa til þess að það fagráð sem þegar hefur tekið til starfa og er innan grunnskólans muni og sinna framhaldsskólanum. Það getur verið gott að halda ákveðinni samfellu í slíku ferli í náinni framtíð. Oft er það svo að nemendur sem verða fyrir einelti eða aðkasti í grunnskóla lenda líka í slíku í framhaldsskólanum. Ef ekki næst að sporna við því í grunnskólanum er þó einhver samfella í því að málin séu rædd og þeim sé fylgt eftir í framhaldsskólum.

Einnig er kveðið á um að til staðar eigi að vera áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. Eins og menn þekkja glöggt eru nemendur ekki sjálfráða fyrr en þeir eru orðnir 18 ára gamlir. Það þarf því að fylgjast með þeim fram að þeim tíma og um þá gilda lög og reglur og meðal annars ber þeim sem telja að einhverju sé ábótavant í lífi barns allt til 18 ára aldurs skylda til að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda.

Í frumvarpinu er líka lagt til að heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda gildi áfram tímabundið, þ.e. út skólaárið 2013–2014. Menn velta því stundum fyrir sér hvernig við forgangsröðum fjármunum. Það ákvæði sem hér er samþykkt, um innheimtu efnisgjalda, kostar framhaldsskólana, sem hafa verkmenntun á sínum snærum, í kringum 200–300 milljónir ár hvert. Það eru áþekkir fjármunir og samþykkt var hér á þinginu ekki alls fyrir löngu að leggja í ákveðnar breytingar á Stjórnarráðinu. Ég ítreka það sem ég sagði þá, um það sama efni, að maður hefði kosið að fjármunum væri öðruvísi varið. Ég stend engu að síður að þessu nefndaráliti vegna þess að ég geri mér grein fyrir að til þess að framhaldsskólarnir geti sinnt þessari skyldu sinni þurfi að framlengja þetta tímabundið út skólaárið 2013–2014.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki stórt frumvarp en vonandi mun það skila nemendum í framhaldsskóla því að þeir ástundi nám sitt með skilvirkari hætti þegar kveðið er á um það í lögum að þeir beri á því ábyrgð og líka framkomu sinni og samskiptum. Einnig er kveðið á um það í þessu frumvarpi að tillit verði tekið til skoðana þeirra þegar kemur að gerð skólareglna og ýmissa annarra þátta í skólastarfinu.

Virðulegur forseti. Í flestum tilvikum eru þær breytingar sem hér eru lagðar til til bóta. Vonandi þurfum við ekki eina ferðina enn að samþykkja að við framlengjum efnisgjöld lengur en frá árinu 2013–2014. Að þessari umræðu lokinni vænti ég þess að þingheimur veiti frumvarpinu brautargengi.