140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér á eftir atkvæði um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem snýr sérstaklega að starfsumhverfi sparisjóðanna í landinu og hvernig þeir eiga að hafa færi á að endurfjármagna sig í kjölfar efnahagshrunsins. Ég hef lagt fram tvær breytingartillögur og er því á nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar með þeim fyrirvara að þær breytingartillögur verði samþykktar. Þær snúa í fyrsta lagi að því að ráðherra muni skipa þriggja manna starfshóp til að fara yfir starfsumhverfi sparisjóðanna og benda á hvaða leiðir megi fara til að bæta rekstrarumhverfi sparisjóðanna til frambúðar því að við viljum tryggja það rekstrarfyrirkomulag sem sparisjóðirnir byggjast á og í öðru lagi að veita almenningi ívilnun til að fjárfesta í stofnfjárbréfum í sparisjóðum og auka þannig möguleika fólks á því að styðja við fjármálastofnanir sínar sem sparisjóðirnir eru. Ég mun gera betur grein fyrir því á eftir.