141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir málflutning hans og skilmerkileg svör. Ég fagna líka því nýja fyrirkomulagi að hægt sé að eiga orðastað við einstaka ráðherra um þeirra málaflokka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um lið í frumvarpinu á bls. 335, um sérstakan saksóknara, þar sem kemur fram að rekstrargjöld embættisins dragist saman um 516 milljónir á næsta ári og gert ráð fyrir að fjárheimildir lækki um um það bil 500 millj. kr. á næsta ári og síðan 300 milljónir árið 2014 og starfseminni ljúki svo.

Er þessi niðurfærsla gerð í samráði við sérstakan saksóknara og embætti hans? Í fjölmiðlum um daginn kom fram að þetta byggði á áætlun sem sérstakur saksóknari gerði fyrir tveimur til þremur árum um framgang mála hjá embættinu. Síðan hefur komið í ljós að miklar tafir hafa orðið á úrvinnslu mála. Hvernig hefur þetta samráð verið? Hvað eru þær áætlanir sem þetta byggir á gamlar? Hvað þýðir þetta í mannahaldi hjá embættinu og hraða í úrvinnslu mála? Það skiptir náttúrlega mjög miklu máli að þessi mál klárist sem fyrst.