141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég treysti því að hv. þingmaður hafi fylgst með umræðum um þá hækkun sem fyrirhuguð er á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og viti af þeirri nefnd sem þegar hefur verið skipuð til að fjalla um aðlögun í þessum málum (Gripið fram í.) Hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur væntanlega fylgst með fréttum og veit að það var skipuð nefnd af hálfu hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma sem var ætlað að fara yfir aðlögunarfrestinn og tímalengdina. Eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt um stendur ekki til að þetta taki gildi 1. janúar samkvæmt frumvarpinu, heldur 1. maí, svo því sé til haga haldið. Það eina sem ég benti á áðan var að þegar rætt er um það verð sem birt er í kynningum á ferðum, er það yfirleitt með fyrirvara. Það er eðlileg athugasemd sem fyrst og fremst styðst við raunveruleikann í þeim efnum.

Þessi nefnd er að störfum. Ég lít svo á að það sé mikilvægt að hún ljúki störfum áður en ákvörðun er tekin. Hún er skipuð í umboði hæstv. fjármálaráðherra sem fer með skattamálin og ég tel eðlilegt að hv. þingmenn bíði niðurstöðu hennar.

Hv. þingmaður nefndi aftur búvörusamningana. Hér er vissulega talað um að auka aftur við búnaðarlagasamninginn. Hv. þingmanni er einnig kunnugt um að þetta eru samningaviðræður. Bændasamtökin eru aðilar að þessum samningaviðræðum. Hér er ekki um einhliða aðgerðir að ræða, heldur snýst þetta um samningaviðræður við fulltrúa bænda og þær eru, eins og ég sagði áðan, á lokastigi. Það er ástæðan fyrir því að þetta er orðað svona í fjárlagafrumvarpinu, og það er gert ráð fyrir því að niðurstaðan verði væntanlega þóknanleg báðum aðilum.

Hvað varðar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar er það auðvitað óvenjulegt mál að því leyti að þar er um að ræða lagaákvæði sem kveður á um 20% endurgreiðslu. Eins og ég gerði mjög skýra grein fyrir áðan er oft erfitt að áætla hver verkefnin verða nákvæmlega. Ég lýsti því hvernig ólíkum aðferðum hefði verið beitt í þeim efnum. Það er gallinn við slíka lagasetningu þar sem er miðað hreinlega við að verkefni skuli eiga rétt á 20% endurgreiðslu. (Forseti hringir.) Þegar verkefnin liggja ekki fyrir nákvæmlega er erfitt að áætla nákvæma heimild. Ég er viss um (Forseti hringir.) að hv. þingmaður hlýtur að hafa skilning á því.