141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það er alltaf gott að fara yfir þessi mál, og nauðsynlegt.

Ég vil nota tækifærið og ræða aðeins stöðu eins hóps sem mér finnst hafa gleymst í þessu öllu saman og mikilvægi þess að koma aftur í virkni fólki sem hefur misst atvinnuna. Þetta er gleymda fólkið sem er núna fallið út af atvinnuleysisbótaskrá, á ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta fólk er sumt hvert á framfærslu sveitarfélaga þar sem eru mjög ströng skilyrði, m.a. mega ekki koma til neinar aðrar tekjur á heimilinu. Annað fólk er á framfærslu maka eða fjölskyldu. Eina von margra í þessari stöðu, þeirra sem hafa lengi verið atvinnulausir, sótt um störf í sífellu og varla fengið svör, er að komast á örorkubætur. Sumir eru hreinlega orðnir öryrkjar af þessari bið og þessari setu því að þetta er niðurdrepandi. Fólk þjáist orðið af þunglyndi, kvíða og doða sem leggst ofan á þá fátækt sem er augljós fylgifiskur langtímaatvinnuleysis. Þessi hópur hefur ekki átt rétt á að nýta sér ýmis góð atvinnuúrræði, eins og Vinnandi veg, vegna þess að þau eru sniðin að atvinnulausum bótaþegum. Það er skilyrði að starfsmaðurinn sé tryggður innan atvinnutryggingakerfisins. Ef hann er dottinn út úr því getur hann ekki tekið þátt í þessum úrræðum.

Þessum hópi langtímaatvinnulausra þarf að sinna sérstaklega og það þarf að gera strax því að við megum engan tíma missa við að leysa vanda þessa hóps. Hann er þegar búinn að bíða allt of lengi.