141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[17:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram í annað sinn, og sérstaklega fagna ég því að það komi svona snemma. Ég vona bara að nefndin bretti upp ermar og geri þetta að lögum sem fyrst. Ástæðan fyrir því að mér finnst það svo mikilvægt er sú að við höfum á síðustu árum fjárfest gríðarlega í bókmenntum með þátttöku okkar á bókamessunni í Frankfurt, sem er kannski stærsta og mesta markaðstorg bókmennta í heiminum, alla vega þeim hluta heimsins sem á annað borð les þýddar bókmenntir. Þetta er því eiginlega mikilvægasti staðurinn til þess að vera á og okkar Sögueyja þar tókst alveg gríðarlega vel. En nú þarf, eins og ráðherra benti á, að fylgja þessu eftir og það þarf að nota þann meðbyr sem við fengum þar og það þarf að tryggja þessari nýju miðstöð, sem byggir þó á gömlum grunni, nægt fé til þess að það sé hægt.

Við höfum upplifað alvöruútrás íslenskra höfunda til annarra landa. Ég ætla ekki að fara að nefna það neitt sérstaklega en við höfum átt metsöluhöfunda víða um heim og við getum verið virkilega stolt af því. Mér finnst margt mjög jákvætt í þessu frumvarpi. Mér finnst til dæmis mjög jákvætt hvernig skipað er í stjórn, tryggt er að fólki sé skipt út reglulega. Þótt fólk sé allt af vilja gert er smekkur manna misjafn og það er alltaf gott að fá nýtt fólk í svona störf. Ég vil leggja gott orð með þessu og skora á nefndina, sem ég á því miður ekki sæti í, að drífa þetta af.