141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbankans, og fagna því mjög að hún skuli vera komin fram aftur og hvet til þess að þingið afgreiði hana hratt og vel þannig að hægt verði að ráðast í rannsókn á þeim atburðum sem gerðust þegar íslensku bankarnir voru færðir í hendur einkaaðila í byrjun 10. áratugarins. Ég held að það sé afar mikilvægt að lagst verði í þá vinnu að draga fram hvað gerðist á þessum tíma og hvernig stóð á því að svo óhönduglega tókst til við að færa bankastarfsemi í hendur einkaaðila.

Jafnaugljóst og blasir við eftir lestur alls þess sem til er um þessi mál réðu einhver önnur sjónarmið en að koma bönkunum í hendur faglegra aðila sem kynnu að reka banka, hvað þá að staðinn væri vörður um að íslenska þjóðin fengi andvirði bankanna greitt því að eins og fram hefur komið mynduðust ákveðin krosslánatengsl á milli þeirra sem fengu bankana í sínar hendur, þ.e. þeir lánuðu hver öðrum fyrir kaupunum og ekki skilaði sér allt í hús og ekki var eftir því gengið heldur.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt var vorið 2010 og lögð fyrir þingið, um orsök og aðdraganda alls íslenska bankakerfisins og efnahagshrunið sem varð hér og náði hámarki haustið 2008, er ítarlega fjallað um einkavæðingu bankanna. Þar er m.a. sagt frá því hversu afdrifaríkar þær ákvarðanir sem teknar voru um einkavæðingu bankanna í byrjun 10. áratugarins voru, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess hversu afdrifarík einkavæðing ríkisbankanna hlaut að verða fyrir framtíðarþróun íslenska bankakerfisins, og að teknu tilliti til sérstöðu kerfislega mikilvægra banka í samfélaginu, voru miklir hagsmunir bundnir því hvaða meginsjónarmið yrðu ráðandi við einkavæðinguna.“

Hvaða meginsjónarmið lágu að baki? Til hvers var þetta gert? Hvaða markmiðum átti að ná? Og hverju átti þetta að skila fyrir íslenskt samfélag, ekki bara í krónum og aurum heldur vonandi þá í bættu samfélagi og betra lífi fyrir íbúa þessa lands?

Við frekari skoðun kemur í ljós, eins og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að önnur sjónarmið réðu ferðinni. Þau voru fyrst og fremst pólitísk og því nær sem dró einkavæðingunni og því betri sem þeir bitar sem stjórnarflokkar þess tíma voru að færa í hendur einkaaðila og vina sinna, þeim mun harðar var um þá slegist og þeim mun meira hungur var í það sem þar var á boðstólum. Þá viku öll meginsjónarmið sem áður hafði verið lagt upp með fyrir flokkssjónarmiðum og pólitískum sjónarmiðum. Um þetta vitnar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, um þetta vitna öll gögn frá þessum tíma og er nú skemmst að minnast að jafnvel sérstakir fulltrúar stjórnarflokkanna í einkavæðingarferlinu öllu fengu margir hverjir yfir sig nóg og sögðu sig frá verkinu. Einn þeirra var formaður einkavæðingarnefndar. Sá sem stýrði þeim hópi skrifaði þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni uppsagnarbréf og sagði sig frá starfinu. Það uppsagnarbréf hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða.“

Uppsagnarbréfið er allmiklu lengra og í kjölfarið á því var talsvert fjaðrafok í samfélaginu og í fjölmiðlum. Þá endurtók sá sem bréfið skrifaði, Steingrímur Ari Arason, allt það sem fram kemur í uppsagnarbréfinu og sagðist standa við öll orð sem þar koma fram og það sem hann hefði sagt um málið.

Í uppsagnarbréfinu sagði umræddur jafnframt:

„Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.“

Fulltrúar annarra aðila sem gerðu tilraunir til að kaupa íslensku bankana sem boðnir voru til sölu, m.a. fulltrúar Kaldbaks, sögðust vera orðlausir yfir því sem þarna var á borð borið og að greinilega hefðu önnur sjónarmið en sjónarmið samfélagsins, ríkisins og þjóðarinnar ráðið för, enda kemur það skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem og í flestum þeim umfjöllunum sem um málið fóru í kjölfar einkavæðingarinnar fyrir hrun að pólitísk sjónarmið hefðu fyrst og fremst ráðið för og ekkert annað.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá tel ég mikilvægt að það komi skýrt fram í þeirri rannsókn sem þingsályktunartillagan kveður á um hvað raunverulega gerðist, þ.e. hvers vegna bankarnir voru einkavæddir eða einkavinavæddir með þeim hætti sem gert var, hvers vegna vikið var frá öllum meginsjónarmiðum og meginreglum við sölu ríkiseigna varðandi einkavæðingu bankanna og hvað réð virkilega för þegar bankarnir voru seldir. Sennilega hafa það fyrst og fremst verið peningar en líklega meiri áhersla lögð á peningahliðina hjá kaupendunum en hjá seljandanum sem var þá íslenska ríkið sem fékk langt frá því allan sinn hlut greiddan, en fékk síðan allt þúsundfalt í hausinn aftur nokkrum árum síðar þegar bankarnir féllu allir aftur í hendur þjóðarinnar eftir það sem á undan var gengið.

Ég fagna þessari tillögu. Ég er einn af flutningsmönnum hennar og mun beita mér fyrir því að hún fái góða umfjöllun í nefnd í þinginu og verði afgreidd á þessu þingi.