141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég ætla að bæta aðeins í umræðuna um það mál sem hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum síðustu tvo sólarhringana, þ.e. skýrsludrög Ríkisendurskoðunar um upplýsingakerfi ríkisins. Menn hafa farið mikinn í þessari umræðu, eðlilega, vegna þess að þetta er mjög alvarlegt mál og hægt að nálgast það með ýmsum hætti en ég vil þó leggja áherslu á að ef ég leita eftir samhljómi í því hvernig alþingismenn hafa tjáð sig um þetta heyrist mér við vera nokkuð sammála um að vinnubrögðin séu til mikils skaða, bæði fyrir stjórnsýsluna hjá okkur og einnig fyrir Alþingi.

Í sumum ræðum er talað um að Alþingi hafi verið blekkt. Það kann vel að vera. Ég vil þó nefna að oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa þingmenn bent á það og hvatt til þess að framkvæmdarvaldið taki þessi mál til athugunar. Það er ekki lengra síðan en í nefndaráliti sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd í desember 2009, sem við lögðum fram með fjárlögum ársins 2010, sem við lögðum fram tillögu um að heildarkostnaður við upplýsingakerfin yrði tekinn út og gerðar ráðstafanir til að lækka þetta. Ég bendi á að núverandi stjórnvöld hafa farið með lyklavöldin í fjármálaráðuneytinu í hartnær fjögur ár, frá 1. febrúar 2009. Fýsískur yfirmaður þessara mála úti í stjórnsýslunni er fjársýslustjóri. Hans næsti yfirmaður er fjármálaráðherra Íslands.