141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað var verið að reyna að gera setu Unnar Brár Konráðsdóttur tortryggilega í verkefnisstjórninni, þetta fjallaði um það, að reyna að draga það fram. Síðan kom það nú fram að hún sat sem fulltrúi núverandi hæstv. forsætisráðherra í málinu í þessari verkefnisstjórn. Því var ekki breytt. Þrátt fyrir hvatningu annarra ráðherra Vinstri grænna hlustaði hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ekki á þau skilaboð á þeim tíma.

Það er þarna líka fólk á við Unni Brá með mismunandi skoðanir, eins og Björg Eva og jafnvel fleiri. Ég treysti þessu fólki til að vinna áfram í þeim farvegi og samkvæmt þeim verklagsreglum sem það setti sér. Verklagsreglurnar eru nefnilega góðar og þetta tókst og mikill metnaður var í starfi þessarar nefndar.

Þetta er augljóst ágreiningsmál innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, hér á þingi og í samfélaginu, og ég skil ekki af hverju hv. stjórnarliðar eru bara ekki tilbúnir til að fara þessa sáttaleið með okkur sjálfstæðismönnum og setja þetta aftur í hið faglega umhverfi og láta þetta fólk klára vinnuna sína og raða virkjunarkostunum niður í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Þannig tökum við það til pólitískrar og þinglegrar meðferðar hér í þinginu, óbreytt frá þeim. Ég skil ekki af hverju menn eru ekki tilbúnir til þess.

Er það af einhverri hræðslu við að allt önnur niðurstaða komi út úr því en niðurstaða ráðherranna sem birtist okkur í þessari þingsályktunartillögu? Treysta hv. stjórnarliðar því ekki að þeir fái kröfur sínar fram með þeirri faglegu meðferð? Eða eru þau pólitísku fingraför sem eru á núverandi (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu svo augljós öllum að þeir hræðast að það verði dregið fram í dagsljósið? Ég held það.