141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:45]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er full ástæða að fagna þessari nýtilkomnu áherslu Sjálfstæðisflokksins á fagmennsku í þessum efnum, það er vissulega stefnubreyting almennt séð. Mig langar því til að benda hv. þingmanni á að ítrekað hefur verið bent á, m.a. í vinnu þessarar verkefnisstjórnar, að faglega vanti mun ítarlegri rannsóknir og betra yfirlit og mat á gildi ferðaþjónustunnar og gildi svæða fyrir útivist o.s.frv. Það er einfaldlega þannig að náttúrufarsrannsóknir, rannsóknir á möguleikum til útivistar og ferðaþjónustu standa mun aftar en hinar gríðarlega viðamiklu rannsóknir orkufyrirtækjanna. Við eigum að sýna þá framsýni að vanmeta ekki heldur hafa í heiðri þá verðmætasköpun sem ýmsar aðrar greinar stuðla að í landinu.