141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:04]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Í þessari umræðu hafa ekki verið nefndir tveir kostir þar sem farið hefur verið á svig við niðurstöðu verkefnisstjórnar með meintum pólitískum afskiptum. Hveravellir eru teknir út úr dæminu og sömuleiðis Eyjadalsárvirkjun.

Hvers vegna skyldi það vera? Jú, vegna þess að samkvæmt gildandi lögum eiga þeir ekki að vera þarna inni. Ef við ætlum að ræða út í hörgul í þann rökstuðning sem borinn hefur verið á borð þar sem ætla má að niðurstöður verkefnisstjórnarinnar séu beinlínis orð guðs sem ekki skuli hróflað við með neinum hætti þá værum við í rauninni að brjóta lög.

Ég nefni þetta hv. þingmönnum til umhugsunar vegna þess sem hér er borið á borð. Hér er látið eins og verið sé að kasta allri vinnu verkefnisstjórnarinnar fyrir róða vegna þess að hæstv. ráðherra vogar sér að fara að gildandi lögum með því að hafa það opna samráðsferli sem lög segja til um. Við verðum að sjálfsögðu að taka þeim afleiðingum og þeirri niðurstöðu sem slíkt samráðsferli hefur í för með sér, það verður að taka mark á alvarlegum ábendingum um að rannsóknir vanti um ákveðna kosti.

Reyndar ætla ég að leyfa mér að fullyrða að frekari rannsóknir vanti á mun fleiri kostum en það er varla hægt að tala um vægari aðgerðir (Forseti hringir.) en þær sem hér er mælt fyrir þegar virkjanir á tveimur svæðum eru settar í bið — í bið. Hér er talað eins og verið sé að kasta öllu fyrir róða. (Forseti hringir.) En ég spyr hv. þingmann aftur: (Forseti hringir.) Lítur hann svo á að (Forseti hringir.) niðurstaða verkefnisstjórnarinnar sé algjörlega og fullkomlega hafin yfir vafa?