141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

mál skilanefnda og slitastjórna.

[10:53]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það vita allir að fjölmiðlar gegna eða eiga að gegna mjög mikilvægu eftirlitshlutverki í þjóðfélagi okkar. Þegar ég skoðaði Fréttablaðið í dag, blaðið sem Bragi frændi minn kallar Stubbablaðið, rakst ég á leiðara. Leiðarar eru yfirleitt heldur ómerkileg bókmenntagrein en einstöku sinnum er þó í þeim að finna setningar sem eru skrifaðar af þvílíkri snilld að maður hrekkur í kút. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þennan leiðara eftir Þórð Snæ Júlíusson þar sem hann fjallar um gróða nýrrar yfirstéttar vegna hrunsins mikla. Leiðarinn heitir „Íslenskur veruleiki“ og í honum stendur:

„Sömu aðilar og lögðu til hráefnið í djöflatertuna sem bökuð var fyrir hrun græða nú á að moka flórinn eftir að henni var skitið.“

Þetta er vel skrifuð setning. Tilefni þessa leiðara er framferði slitastjórna og skilanefnda sem er almennt hneykslunarefni, eftir því sem ég hef samband við íslensku þjóðina. Ég tek starf mitt á þinginu mjög alvarlega. Ég tek mjög alvarlega þá eftirlitsskyldu sem þingið hefur en ég veit ekki nákvæmlega hvar valdmörkin liggja. Ég veit að ég hef engin tök á því að hringja inn í stofnanir, heimta bókhald og skoða nákvæmlega hvað þar er á ferðinni. Ég hef heldur ekki getu til þess, ég er ekki endurskoðandi og nú síðast hafa fjölmiðlar ljóstrað því upp að þau augu sem þingheimur hefur til að rannsaka þessa hluti (Forseti hringir.) hafa verið á mjög hálum ís.

Ég spyr því forsætisráðherra: Eru slitastjórnir og skilanefndir ríki í ríkinu (Forseti hringir.) sem ráða sér sjálfar og við höfum ekkert yfir að segja?