141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

staða ESB-umsóknarinnar.

[11:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það sem ég sagði í fjölmiðlum í ágúst gildir og það sem kom líka fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér í maí er rétt, að ég tel að sú umræða sem hefur stafað af aðildarumsókn Íslands sé stöðug og viðvarandi. Þetta er það stórt umfjöllunarefni og viðfangsefni að við eigum að halda umræðunni vakandi.

Ég hef raunar orðið fyrir dálitlum vonbrigðum með það hvernig þessi umræða hefur þróast, þ.e. alveg frá því í maí 2009 þegar ég greiddi atkvæði með aðildarumsókninni, vegna þess að ég taldi kominn tíma til þess að þjóðin fengi að taka afstöðu og hafði væntingar til þess að umræðan yrði dýpri og skynsamlegri eftir því sem tíminn liði. Því miður hefur umræðan þvert á móti orðið svarthvítari og átakakenndari og við sem höfum verið kjörnir fulltrúar höfum ekki endilega verið til fyrirmyndar í því hversu upplýst og yfirveguð umræðan hefur verið, heldur hefur hún einkennst af upphrópunum. Menn hafa jafnvel talað um EES-samninginn í því samhengi o.s.frv. Umræðan verður að fá að vera óhikuð og opin í samræmi við lýðræðislega skyldu okkar hér og það er óbreytt frá því sem var 2009, að lýðræðiskrafan er númer eitt, tvö og þrjú í þessu efni, þ.e. að íslenskur almenningur fái að taka afstöðu á grundvelli upplýsinga og umræðu.