141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:03]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það frumvarp sem hér er lagt til af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins, ég gerði fyrr í dag alvarlegar athugasemdir við það. Það hnígur allt í átt að nýtingu og því að loka á opið samráð sem ég tel nauðsynlegt, auk þess sem hér eru auðvitað í gildi lög, eins og hér hefur komið fram og kom líka fram í máli mínu, sem þingheimur samþykkti fyrir ekki svo löngu með afar miklum meiri hluta, m.a. atkvæðum sjálfstæðismanna, sem hér er verið að fara eftir. En nóg um það.

Ég vil þó segja aftur að mér finnst viðhorf hv. þingmanns jákvætt og virðingarvert, og það sem hefur komið fram í umræðunni að fólk þvert á flokka vilji reyna að hafa í heiðri fagleg og vönduð vinnubrögð í þessu ferli og halda því til haga.

Þá kemur að spurningu minni. Það bárust ýmsar umsagnir frá mjög sterkum fagaðilum sem gagnrýndu mjög hversu margir kostir voru settir í nýtingarflokk og sögðu að það þyrfti mun meiri rannsóknir og upplýsingar áður en teknar væru svo afdrifaríkar ákvarðanir. Það komu líka umsagnir frá öðrum sem sátu í verkefnisstjórninni með hv. þingmanni og sögðu að það hefði alltaf verið útgangspunkturinn, það hefði alltaf verið gert ráð fyrir því innan verkefnisstjórnarinnar að biðflokkurinn væri mjög stór en hinir flokkarnir mun minni. Því hefði komið öllum á óvart að niðurstaðan varð allt önnur innan þessa litla hóps sem var skipaður.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, þar sem hún sat í verkefnisstjórninni, hvort þetta hefði einnig verið upplifun hennar og hvort hún telji það frekar til sátta (Forseti hringir.) að biðflokkurinn stækki.