141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[14:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka þátt í umræðu um það mál sem hæstv. innanríkisráðherra hefur nú mælt fyrir. Ég tek fram strax í upphafi að ég hef haft fyrirvara á þessu máli þegar það hefur verið til umfjöllunar í þingflokki mínum. Sá fyrirvari er óbreyttur. Ef eitthvað er þá hef ég heldur styrkst í því að styðja ekki þetta mál. Það helgast af því að ég er enn sannfærður um að sú leið sem hér er farin í sameiningu stofnana sé ekki rétt. Ég er ekki andsnúinn því að stofnanir á þessu sviði, og stofnanir ríkisins almennt, séu sameinaðar og reynt að ná meiri hagræðingu í rekstri þeirra, eins og er að sjálfsögðu grundvallarforsendan á bak við þetta þingmál, en fagleg rök verða að vera fyrir þeim sameiningum sem ákveðnar eru.

Fram hafa komið verulegar athugasemdir, einkum og sér í lagi að því er varðar siglingaþáttinn í frumvarpinu. Það er sá þáttur sem ég hef ekki bara efasemdir um heldur mikla fyrirvara við og tel að hann hafi ekki verið athugaður gaumgæfilega. Áður í þessari vinnu, og af hálfu þeirrar nefndar sem á sínum tíma var falið að undirbúa sameiningu stofnana á sviði samgöngumála, hafa komið fram fleiri hugmyndir um leiðir sem hægt væri að fara. Ég fæ ekki betur séð en að sú leið sem hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, valdi upphaflega, og hefur síðan verið endurflutt í þinginu í nokkur skipti, sé ekki í samræmi við helstu tillögu nefndarinnar.

Ég hef verið talsmaður þess að menn skoði mjög rækilega möguleikana á því að koma á fót sérstakri stofnun hafs og strandar sem yrði til með sameiningu Siglingastofnunar, Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu en auk þess mætti færa þangað verkefni frá öðrum stofnunum, svo sem mengunarvarnir á sjó frá Umhverfisstofnun. Það sjónarmið kom meðal annars fram í umsögn Siglingastofnunar þegar þetta mál var áður til umfjöllunar.

Ég fæ ekki betur séð en að frumvarpið sé flutt óbreytt frá síðasta þingi með þeim lítilvægu breytingum sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd gerði undir lok síðasta þings en þær lutu ekki að þeim þætti sem ég hef gert að umtalsefni.

Það vekur líka athygli mína að þegar málið var til afgreiðslu við 2. umr. í fyrra var umtalsverð andstaða við það. Það endurspeglaðist í atkvæðagreiðslunni en þá sátu fleiri þingmenn hjá við atkvæðagreiðsluna en studdu það. Margir sátu hjá með þeim orðum, meðal annars ég, að málið yrði þá tekið til umfjöllunar í nefnd á milli 2. og 3. umr. og að þau álitamál sem hefðu komið fram í umræðunni yrðu þá skoðuð sérstaklega. Málið fór til umhverfis- og samgöngunefndar á nýjan leik á milli 2. og 3. umr. en þær breytingar, eins og ég sagði, sem nefndin gerði á málinu þá lutu ekki að þeim athugasemdum sem komu fram við 2. umr. Mér finnst að ekki hafi verið mikið gert með þær athugasemdir sem að mínu viti eru stórvægilegar og ég tel að málið þurfi að fá skoðun alveg frá grunni.

Ég hef verið í sambandi við og heyrt sjónarmið frá ýmsum sem hafa verið að vinna á þessu sviði, meðal annars hjá Siglingastofnun og Landhelgisgæslunni, og mér finnst ljóst, af því sem ég heyri þaðan, að ekki sé mikill stuðningur við þá leið sem hæstv. ráðherra hefur valið að fara og þar séu enn uppi þau faglegu sjónarmið að betra væri að huga að sameiningu verkefna á sviði siglinga með þeim verkefnum Siglingastofnunar sem lúta að siglingaöryggi, mengunarvörnum á sjó, eftirliti, alþjóðlegum skuldbindingum á sviði siglinga ásamt þá með verkefnum Landhelgisgæslunnar. Ég held því sjónarmiði enn fram að þetta hafi alls ekki verið skoðað til neinnar hlítar.

Ég treysti því að sjálfsögðu að nefndin sem fær þetta mál til meðferðar leiti á nýjan leik umsagnar frá þessum aðilum. Ég hvet einnig til þess að á nýjan leik verði leitað umsagnar Vegagerðarinnar vegna þess að sjónarmið kunna að sjálfsögðu að hafa breyst eftir því sem dregist hefur að þetta mál fengi afgreiðslu á Alþingi. Ég held reyndar að ástæðunnar fyrir því sé að leita í því að ekki er fullkomin samstaða um málið. Því miður virðist mér ekki hafa verið leitað eftir meiri sátt eða samstöðu um þá leið sem skynsamlegt væri að fara.

Nú hefur það gerst frá því að þetta mál kom fram upphaflega, og reyndar er getið um það í umsögn Siglingastofnunar frá 3. mars 2011, þegar málið var til umfjöllunar, að líklegasta skýringin á því að menn vildu ekki fara þessa leið á sínum tíma varðandi Landhelgisgæsluna og Siglingastofnun hafi verið sú að stofnanirnar hafi ekki heyrt undir sama ráðuneytið. Það er mjög líkleg skýring vegna þess einfaldlega að tregða hefur verið til að sameina stofnanir á milli ráðuneyta. Nú heyra þessar stofnanir báðar undir innanríkisráðuneytið, með nýrri verkaskiptingu og sameiningu ráðuneyta, þannig að ég hefði talið hæg heimatökin að samþætta þessi verkefni í einni stofnun hafs og stranda.

Ég hef nálgast þetta mál út frá þeim forsendum að talsverður eðlismunur sé á hafinu annars vegar og öðrum þáttum sem þessi frumvörp lúta að, þ.e. skipulagi samgangna á landi og í lofti. Ég hef bent á að ríki sem er eyland eins og okkar byggir afkomu sína á auðlindum sjávar og á allt undir því að vel sé staðið að öllum þeim málum sem varða rannsóknir og eftirlit með hafsvæðum okkar. Það hefur umfram allt verið verkefni Siglingastofnunar, Landhelgisgæslunnar og að hluta til stofnana umhverfisráðuneytis að því er varðar mengun sjávar og einnig á hendi stofnana eins og Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Ég tel því ástæðu til að gefa þessu góðan gaum og fara betur yfir þetta.

Ég vek athygli á því að í ýmsum umsögnum sem bárust um málið, frá Hafnasambandi Íslands auk annarra sem ég hef þegar nefnt, koma fram athugasemdir við þessa leið. Þar er einnig bent á skýrslu nefndar sem skipuð var á sínum tíma um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Mikil samlegð er milli verkefna Siglingastofnunar, Landhelgisgæslu og Fiskistofu og afmarkaðra verkefna annarra stofnana, svo sem Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunar.“

Í umsögn Hafnasambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„… innan stofnunar hafs og strandar mundi þjónusta við hafnir og sérþekking á málefnum hafna geta verið af þeim gæðum sem verið hefur innan Siglingastofnunar. Stjórn Hafnasambands Íslands telur samhliða þessu að hagsmunum hafna og mikilvægis þeirra fyrir samgöngukerfi landsins verði ekki vel skipað í framkvæmdastofnun sem hafi vegagerð sem meginverkefni.“

Þetta er síðan rakið og rökstutt nánar og áfram segir, með leyfi forseta:

„Í þeim efnum er bent á fyrirkomulag í nágrannalöndum Íslands þar sem víða er lögð áhersla á öfluga stofnun á sviði hafs og strandar þar sem sérþekkingu í hafnargerð, öldu- og sjómælingum, rannsóknum, mengunarvörnum, öryggismálum og almennu eftirliti á hafinu er safnað saman í öfluga einingu. Reynslan innan lands sem erlendis sýnir að mikil þörf er fyrir íslenskt samfélag að hafa örugga og trausta skipan þessara mála.“

Einnig má benda á að sú leið hefur til dæmis verið farin í Bretlandi að sameina landhelgisgæsluna þar og siglingastofnun og hefur gefist vel að því er sagt er. Ég tel ástæðu til að nefndin kynni sér meðal annars reynsluna af þeirri leið sem þar var farin.

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka fyrirvara minn við þetta mál. Ég treysti mér ekki til að styðja það eins og það lítur út í umræddu frumvarpi hæstv. ráðherra. Ég tel að betur þurfi að fara yfir þau álitamál sem ég hef vakið máls á í dag og áður við umræðu um þetta mál. Ég mun skoða það ef hv. nefnd kemur með breytingartillögur, hvort þær séu í þá veru sem ég tel að eigi að gera í þessu efni. Ég tel sem sagt mikilvægt að við styrkjum þá starfsemi sem lýtur að hafinu kringum okkur, allt sem lýtur að siglingaöryggi, eftirliti og björgunarstörfum, mengunareftirliti og öðru slíku í hafinu í kringum okkur.

Ég hefði haldið að með vaxandi umræðu um breytingar á norðurslóðum, með vaxandi umræðu um auknar siglingar í kringum landið, sem að sjálfsögðu hafa áhrif á okkur sem erum háð auðlindum sjávar, væri einnig vaxandi áhugi á að skoða þessa þætti betur og fara yfir þá en ekki koma eina ferðina enn með frumvarp sem hefur litlum sem engum breytingum tekið efnislega frá því fyrir allmörgum árum.

Ég vildi að þessi sjónarmið kæmu fram hér strax við 1. umr. þannig að þau mættu rata inn í umræðu á vettvangi hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem ég vonast til að skoði gaumgæfilega þessa hluta málsins. Ég ítreka að ég er ekki andsnúinn því að farið sé í sameiningu verkefna á þessu sviði og legg beinlínis til að menn skoði einkum og sér í lagi Siglingastofnun og Landhelgisgæsluna — vaktstöð siglinga ætti að sjálfsögðu þar heima, en þetta þarf allt að skoða við yfirferð þessa máls.