141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, ég hef miklar efasemdir um það mál sem við erum með hér til umræðu og geri ákveðna fyrirvara við það. En það sem ég ætla að staldra við er að fjallað hefur verið um þetta mál, eins og kemur fram í frumvarpinu og kom fram í máli hv. þingmanns, á þremur þingum áður. Það hefur alltaf dagað uppi, ef orða má það þannig, ekki verið afgreitt en það er alltaf lagt fram óbreytt. Ég sé ekki neinar breytingar á því. Ég hef ekki lúslesið þetta saman við fyrri frumvörp en ég sé ekki neinar breytingar og það kemur reyndar fram í frumvarpinu að það hefur verið lagt fram í þrígang þannig að ég lít svo á að það sé óbreytt.

Ég vil líka segja að það hefur komið mjög ítarlega fram í umfjöllun um málið að það væri vert að skoða mun fleiri kosti til að ná fram enn frekari hagræðingu en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég held að það sé samdóma álit mjög margra að það væri mun skynsamlegri leið að skoða þá kosti.

Þær girðingar sem stóðu í veginum fyrir afgreiðslu þessa máls árið 2011 voru einmitt sagðar þær að það væri svo erfitt að sameina stofnanir þvert á ráðuneyti, það væru girðingar á milli ráðuneyta. Síðan hefur það gerst að búið er að sameina hluta af þeim ráðuneytum sem þær stofnanir sem hafa með þessa málaflokka að gera heyra undir. Það væri alveg klárlega vert að skoða að minnsta kosti þrjár eða fjórar stofnanir, til að mynda Landhelgisgæsluna, Fiskistofu og hluta af starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Það sem mér finnst dálítið ámælisvert og ég er mjög hugsi yfir er að við umfjöllun hv. samgöngunefndar um málið 2011, en ég átti þá sæti í nefndinni, var gerð alvarleg athugasemd við það að ekki lægi fyrir útfærsla á því hvernig ætti að hagræða innan stofnananna. Það átti að spara 10% í yfirstjórninni en það var ekkert útfært. Ég kallaði margoft eftir þessum gögnum í hv. samgöngunefnd á þeim tíma og sagði: Ég tel eðlilegt að hv. þingmenn og nefndin sem fjallar um málið fái að sjá grunngögnin sem liggja að baki þessari tölu. Það var ekki hægt heldur var bara vísað í þennan texta sem segir í raun og veru ekkert annað en að hægt sé að spara um 10–15%. Ég er mjög ósáttur við þetta, sérstaklega í ljósi þess að þegar Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sameiningu stofnana fyrir nokkru síðan kom klárlega í ljós í þeirri skýrslu að í meira en 75% tilfella náðist ekki fram sú hagræðing sem átti að nást fram með sameiningu stofnana vegna þess að undirbúningurinn var ekki nægilega góður og þau markmið sem átti að ná með sameiningunni voru ekki nægilega skýr.

Ég get ekki séð að tekið sé á þessu og það kemur mér verulega á óvart vegna þess að við umræðuna á síðasta þingi um þetta mál tóku bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem var og er formaður umhverfis- og samgöngunefndar undir þessa gagnrýni og sögðu: Það er óvarlegt að áætla að allur þessi sparnaður sem þarna er talað um muni nást fram. Þau höfðu efasemdir um það. En mér sýnist í fljótu bragði að ekkert sé reynt að bæta úr þessu við framlagningu málsins núna, það er bara nýtt þingskjalsnúmer á frumvarpinu. Það er ekkert tillit tekið til einmitt þess sem varð niðurstaða hv. umhverfis- og samgöngunefndar í fyrra eða samgöngunefndar þar á undan sem gerði líka athugasemdir við þetta. Það veldur mér miklum vonbrigðum að í raun sé ekkert gert með vinnu þingsins þegar málið er lagt fram og reynt að bregðast við niðurstöðum þess. Það kom skýrt fram í nefndarálitinu að gerðar voru athugasemdir um þetta og talið skynsamlegra að skoða frekari sameiningar og þar með mætti ná fram enn meiri hagræðingu og skynsamlegri niðurstöðu. En hér koma fram sömu fullyrðingarnar um það hvernig megi ná sparnaði.

Þegar hv. samgöngunefnd afgreiddi málið í lok maí 2011 fylgdi nefndarálitinu meira að segja breytingartillaga sem varðaði eiginlega veginn fram undan fyrir hæstv. ráðherra. Hann ætti fyrir árslok 2012 að vera búinn að gera ríkisstjórn og þinginu grein fyrir því hvernig hann ætlaði að fara í frekari sameiningar og hver væru áform hans í þá veru. Það var í raun samdóma álit nefndarinnar að það frumvarp sem þá var til umræðu og er lagt fram óbreytt núna væri auðvitað fyrsta skrefið í átt til hagræðingar og þess vegna var gerð þessi sérstaka breytingartillaga. Þess vegna er ég ekki sáttur við að ekki skuli hafa verið gert meira með niðurstöðu nefndarinnar og ekki reynt að útfæra þetta, sérstaklega þar sem það kom fram í máli bæði hæstv. ráðherra og hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar sem sögðu eiginlega: Já, við skulum ekki gera okkur svona miklar væntingar um sparnaðinn. Þetta er frekar oftúlkun en hitt. Mér fannst skynsamlegt og heiðarlegt af þeim að segja þetta, en málið er bara óbreytt.

Þegar maður les frumvarpið og sérstaklega umsögn fjárlagaskrifstofunnar þá vakna auðvitað spurningar. Í umsögn skrifstofunnar kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi og voru þá ekki fyrirliggjandi rekstraráætlanir fyrir þessar nýju stofnanir né hvernig 484 millj. kr. rekstrarframlag Vegagerðarinnar og 692,4 millj. kr. rekstrarframlag Siglingastofnunar í fjárlögum 2012 muni skiptast milli stofnananna tveggja.“ — Það liggur sem sagt ekki fyrir hvernig á að skipta framlaginu milli stofnananna. — „Slíkar áætlanir liggja ekki heldur fyrir á þessu stigi hjá innanríkisráðuneytinu.“

Þetta þykir mér alveg með ólíkindum ef rétt er, en ég tel víst að innanríkisráðuneytið hafi auðvitað lesið yfir það sem kemur hér fram.

Síðan gerir fjárlagaskrifstofan líka mjög alvarlegar athugasemdir við annað í umsögn sinni. Það kemur fram að samkvæmt mati innanríkisráðuneytisins sé gert ráð fyrir því að með samþættingu þessara verkefna í tvær nýjar stofnanir verði mögulegt að ná fram beinni hagræðingu í rekstrargjöldum sem nemi um 10%. Síðan segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar:

„Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar.“

Ég spyr sjálfan mig og aðra hv. þingmenn: Hvernig í ósköpunum getur maður annað en haft efasemdir um þetta mál? Ég geri mér þó vonir um og þykist vita að hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni fara ítarlega yfir þetta. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það veldur mér auðvitað vonbrigðum að innanríkisráðuneytið skyldi ekki taka tillit til þeirrar umræðu sem fór fram síðastliðið vor.

Það er hægt að hafa miklar efasemdir um margt í þessu máli. Fyrsta atriðið er að það væri skynsamlegra að fara í annars konar sameiningar en hér er gert ráð fyrir, það er að minnsta kosti mitt mat. Ég held að það væri skynsamlegra að taka inn þær stofnanir sem ég nefndi áðan þar sem klárlega eru snertifletir á samstarfi, hvort sem það er Landhelgisgæslan, Fiskistofa eða aðrar.

Síðan er óleyst hvernig menn ætla að útfæra þetta. Ég hef alla vega ekki séð þá útfærslu enn. Það eru til dæmis mismunandi tölvukerfi í öllum þessum stofnunum og margt annað sem þarf að hafa í huga. Í einni stofnun er til dæmis biðlaunaréttur upp á um 200 millj. kr., ef ég man rétt. Þannig að það er nauðsynlegt fyrir þingið að fá allar þessar upplýsingar áður en menn taka endanlega ákvörðun, það má ekki henda þessu í nefndina og skilja hana síðan eftir með það að fá ekki nauðsynlegar upplýsingar. En auðvitað treysti ég því og þykist vita að nefndin muni fá þær því að öðruvísi getur hún ekki lagt til að frumvarpið verði samþykkt svona, sérstaklega í ljósi þess að reynslan er sú, eins og ég nefndi áðan, að í tæplega 80% tilfella þegar stofnanir eru sameinaðar til að ná fram fjárhagslegri hagræðingu hefur það mistekist. Þar með er ég ekki að segja í hvorn flokkinn þetta verkefni fellur, í 20% flokkinn eða 80%, en vinnubrögðin eru ekki nógu góð. Það eiga að vera skýrari línur með það og betur útfært hvernig þessi hagræðing á að nást fram, það er ekki nóg að segja bara að það sé hægt að ná 10% sparnaði af þessu og 15% af hinu. Svo eru engin gögn á bak við það sem maður fær að sjá sjálfur. Þetta virkar á mann eins og þetta sé bara einhver ágiskun. Og að mínu viti er ekki nægilegt að menn komi hér og segi: Þetta er hárrétt ábending, það er kannski fullmikið í lagt í sparnaðaráformunum. Ég tel að það þurfi að fara yfir þetta sérstaklega.

Það er hægt að tala mjög lengi um einstaka þætti í þessu frumvarpi en ég ætla ekki að dvelja mikið lengur við það við 1. umr., ég ítreka bara að þetta þarf að skoða betur og lýsi vonbrigðum með það að ráðuneytið skuli alltaf leggja fram nánast óbreytt frumvarp án þess að taka tillit til þess sem hefur komið fram í umræðunni á undanförnum þremur þingum.

Síðan er reyndar eitt í viðbót sem ég er mjög ósáttur við og ég vil hnykkja á hér. Það er gert ráð fyrir því að tekjurnar eigi að hækka með sérstökum mörkuðum tekjum þar sem verið er að hækka gjaldskrárnar og þar fram eftir götunum. Það er gert ráð fyrir 37 millj. kr. hækkun á gjöldum eða nýrri gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu. Þessar tekjur eiga að renna inn í stofnunina. Það sem er umhugsunarvert í þessu er að verið er að vinna það í fjármálaráðuneytinu og í samráði við fjárlaganefnd, og það er líka búið að ræða þetta margoft í þinginu, að mörkuðu tekjurnar fari í ríkissjóð og stofnanir settar á fastan fjárlagalið. Það er skýr vilji til þess að þetta sé þannig í þeim frumvörpum sem lögð eru fram, hvort sem það eru stjórnarfrumvörp eða þingmannamál. En hér er gert ráð fyrir að tekjurnar renni til stofnunarinnar. Það verður ugglaust ekki tekið fyrir þetta, þó að allir tali um hversu mikilvægt og skynsamlegt það sé að mörkuðu tekjurnar fari í ríkissjóð, fyrr en búið verður að samþykkja lög um að markaðar tekjur og sértekjur fari beint inn í ríkissjóð að eins miklu leyti og það getur gengið og er skynsamlegt að stofnanir séu reknar á sérstöku fjárlaganúmeri. Ég geri athugasemd við þetta atriði en ég er farinn að átta mig á því að þetta mun ekki breytast, þó að búið sé að tala um þetta endalaust, fyrr en búið verður að samþykkja lögin. Það verður hugsanlega ekki fyrr en undir lok þessa kjörtímabils sem eru auðvitað mikil vonbrigði.

Ég treysti því og þykist vita að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari vandlega yfir þetta mál og það lendi ekki hér í einhverju brjálæðiskasti í afgreiðslu fyrir áramótin eða í vor þannig að það sé hægt að fjalla almennilega um málið og það renni ekki í gegnum þingið í einhverju samkomulagi sem hluti af öðrum stærri málum.