141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands.

144. mál
[17:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og við heyrðum á svörum hæstv. ráðherra er staða þessa safns mjög alvarleg. Gripirnir eru núna geymdir við ófullnægjandi aðstæður í Loftskeytastöðinni. Ég vil inna hæstv. ráðherra betur eftir því hvert gripirnir eigi í raun að fara. Ég hef skilið það þannig að það sé eitthvað óljóst hvert þeir eigi að fara og hver geti hýst þá. Og er það ekki rétt skilið að gripirnir frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, gömlu gripirnir, eigi að flytjast til Náttúruminjasafnsins frá Náttúrufræðistofnun Íslands? Mér skildist að það hefði komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er ágætt ef ráðherra getur skorið úr um það hér.

Mér fannst athyglisvert að hæstv. ráðherra sagði að athugað yrði nánar með fjárhagslegan grundvöll sýningar í Perlunni og þingmannahópurinn yrði kallaður til samráðs um þau mál. Ég vil fagna því að viðhalda eigi því samráði sem hafið var. Við fórum svolítið út af sporinu í því samráði þegar þingmannahópurinn frétti í fjölmiðlum að búið væri að taka mikilvægar ákvarðanir um þetta safn án þess að hann hefði verið með í ráðum. Það er ágætt ef hægt er að endurvekja samráðið.

Ég vil líka fagna því að ráða eigi forstöðumann og ég vil túlka það sem svo að hæstv. ráðherra hafi séð að ekki væri hægt að hafa lengi forstöðumannslaust í safninu. Núna á að auglýsa eftir nýjum forstöðumanni frá og með næstu mánaðamótum, segir hæstv. ráðherra. Ég held að það sé rétt skref. Meðan er bara settur forstöðumaður er það skemmri skírn. Það er ekki eðlilegt að þjóðminjavörður sé settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, það er alls ekki eðlilegt. Meðan svo er er safnið í biðstöðu að mínu mati.

Ég fagna því að auglýsa eigi eftir nýjum forstöðumanni og vona að (Forseti hringir.) þegar sá einstaklingur verður kominn til starfa færist meira líf í málefni Náttúruminjasafns Íslands.