141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af allra síðustu orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, bendi ég hv. þingmönnum sem ekki voru hér í gær á að þetta er nokkurn veginn það sem hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði í gær. Hann áréttaði í svörum við fyrirspurn að þingið hefði síðasta orðið um þessi mál.

Menn virðast leggja misjafna merkingu í þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október. Sumir líta svo á að verið sé að kjósa um endanlegar tillögur og ekki megi hnika til orði af því sem kemur fram í þeim, aðrir eru þeirrar skoðunar að verið sé að kjósa um einhvers konar leiðarljós, grunnhugmyndir eða eitthvað þess háttar.

Ég held að það væri þarft fyrir þá sem ætla að ganga til kosninga og greiða atkvæði 20. október að vita hvað meiri hlutinn á þingi, meiri hluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar, ætlar sér með þessar tillögur, hvort hann álíti að um sé að ræða tillögur sem eigi að byggja á og hafa að leiðarljósi, eigi að mynda grunnhugsun nýrrar stjórnarskrár, eða hvort menn eru sammála Þorvaldi Gylfasyni prófessor sem hefur sig mest í frammi af hálfu fyrrverandi stjórnlagaráðsliða um að óþarfi sé að hnika til orði og þingið eigi að sjá sóma sinn í að hnika ekki til orði í því sem stendur í tillögunum frá stjórnlagaráði.

Það væri forvitnilegt fyrir kjósendur og líka fyrir okkur þingmenn alla að vita hvert er viðhorf þeirra sem tóku ákvörðun um að leggja upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, leggja upp í leiðangurinn með þessum hætti. Hver er hugur þeirra í þessum efnum? Hversu mikið svigrúm telja þeir sig hafa síðar í vetur til að breyta frá tillögum stjórnlagaráðs, breyta út af orðalagi, breyta út af hugtakanotkun og fleiru sem fræðimenn hafa meðal annars gagnrýnt mjög harðlega? Menn hafa nefnt ruglingslega hugtakanotkun, óljóst orðalag, óljós markmiðasetning og þess háttar. (Forseti hringir.) Hversu mikið svigrúm telja stjórnarliðar í þingsal sig hafa til að víkja frá texta stjórnlagaráðs eins og hann kemur fyrir?