141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að taka til máls um nokkuð sem mér finnst vera talsverður misskilningur um í þinginu; þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram undan er um drög að nýrri stjórnarskrá. Umræðan um þetta í gær var mjög sérkennileg.

Ritun nýrrar stjórnarskrár var útvistað af Alþingi til þjóðarinnar á sínum tíma með lögum frá Alþingi og það var ekki eitt einasta mótatkvæði greitt gegn þeim lögum. Ef ég man rétt voru 50 fylgjandi, einn sat hjá og tólf voru fjarverandi. Annað var ekki við hæfi enda hafði hér orðið hrun og það er mjög óeðlilegt að það séu eingöngu alþingismenn sjálfir sem setji sér eigin valdsmörk. Haldinn var þjóðfundur með 1 þús. manna slembiúrtaki úr þjóðskrá sem lagði fram þau gildi sem við verðum að viðurkenna að þjóðin vill að séu í stjórnarskrá því slembiúrtak úr þjóðskrá er fullkomið þversnið af íbúum landsins og þar með hugmyndum þeirra.

Skipuð var stjórnlaganefnd að tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd á sínum tíma og ákveðið að kjósa stjórnlagaráð. Sú kosning var síðan dæmd ógild af Hæstarétti. Það var mjög umdeildur úrskurður — ekki dómur heldur úrskurður — vegna þess að það er óheyrt í sögu vestrænna lýðræðisríkja að kosningar séu dæmdar ógildar ef ekki er hægt að sýna fram á að eitthvað hafi haft áhrif á úrslitin. Síðan fer málið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu til þjóðarinnar vegna þess að Alþingi þarf að fá álit þjóðarinnar á þeim drögum sem búið er að semja.

Það er athyglisvert að hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn hafa komið fram með efnislega gagnrýni á innihald stjórnarskrárinnar, (Gripið fram í: Hvað?) þeir gera það vonandi þegar hún kemur til þingsins. Þeir hafa eingöngu verið að gagnrýna ferlið við ritun hennar. (Forseti hringir.) Ég hef ekki heyrt neina efnislega gagnrýni um eina einustu grein. Mig langar að þetta komi fram vegna þess að umræðan um þetta, sérstaklega af hálfu Sjálfstæðisflokksins, hefur verið mjög einkennileg og (Forseti hringir.) það væri meiri sómi að því ef þeir gerðu þetta af virðingu við þjóðina.