141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir tillögu hv. þm. Péturs Blöndals. Ég tel að vel færi á því að við mundum taka jafnvel heilan dag í þinginu til að ræða þetta mál og það væri vel til þess fallið, m.a. til að vekja aukna athygli á atkvæðagreiðslunni, auka umræðu. Það getur ekki verið nema af hinu góða að við á Alþingi tökum þátt í umræðu um það mál hér innan veggja þingsins, rökræðum efnislegt innihald og til upplýsingar í umræðunni, það mun efla og styrkja hana.

Ég er ekki að þar með segja að allt sem hér komi fram sé réttast og best en hér munu þá koma fram andstæð sjónarmið þar sem við munum ræða um efnisþætti málsins. Ég held að það styrki síðan þá atkvæðagreiðslu sem fram undan er. Ég skil ekki hvers vegna hv. þingmenn vilja ekki taka slíka umræðu. Ég sé ekkert annað en jákvætt við hana.

Ég benti á eina grein sem ég tel stórlega gallaða. Það væri mjög gott fyrir umræðuna ef fram kæmu til dæmis (Forseti hringir.) andstæð rök við það sem ég benti á o.s.frv. Því skyldum við ekki taka slíka umræðu? Það væri (Forseti hringir.) málinu til heilla.